Satan þykir of djöfulli hress

Svona stendur til að djöfullinn sjálfur verði sýndur í spænsku …
Svona stendur til að djöfullinn sjálfur verði sýndur í spænsku borginni Segovia. Ekki eru allir sáttir með það. Mynd/Segovia

Borgaryfirvöld í Segovia á Spáni hafa verið gagnrýnd vegna bronsstyttu af satan sjálfum, sem til stendur að koma fyrir í borginni. Gagnrýnin snýr ekki að því að ósmekklegt sé hafa styttu af þessum holdgervingi hins illa í borginni, heldur aðallega að því að sú stytta sem til stendur að setja upp sýni djöfulinn í of jákvæðu ljósi.

Djöfullinn sem á að setja upp er of glaðvær og kíminn, segja þeir úr hópi borgarbúa sem standa að undirskriftasöfnun á netinu, sem um 5.400 manns hafa þegar skrifað undir, eða yfir 10% borgarbúa. Í ákalli þeirra til borgarstjórnar segir að með því að sýna djöfulinn í svona vinalegu ljósi sé verið að „upphefja illsku“, sem sé „móðgandi fyrir kaþólikka“.

Hann er ekki ófrýnilegur þessi, en mætti gjarnan vera það, …
Hann er ekki ófrýnilegur þessi, en mætti gjarnan vera það, að margra mati. Mynd/Segovia

Vilja þeir annaðhvort að djöfullinn verði gerður ógnvænlegur og viðbjóðslegur ásýndum ellegar að hætt verði við uppsetningu styttunnar, sem sýnir djöfulinn sem lítinn og pattaralegan, auk þess sem satan er með snjallsíma við hönd.

Dómari í borginni hefur úrskurðað að uppsetning listaverksins verði sett á ís, á meðan hann meti hvort þessi glaðværi djöfull sé í raun móðgandi fyrir þá sem eru kristinnar trúar.

Bronsstyttan hefur verið sköpuð til þess að minnast langlífrar goðsagnar um borgina, sem er á þá leið að djöfullinn hafi verið plataður til þess að byggja vatnsveitukerfi borgarinnar. José Antonio Abella, listamaðurinn að baki verkinu, segir að gagnrýnin komi honum algjörlega á óvart.

„Ég skil ekki neitt,“ segir Abella við spænska blaðið El Pais. „Ég vildi bara skapa eitthvað til þess að færa borginni virðingarvott fyrir allt það sem hún hefur gefið mér.“

Borgarfulltrúinn Claudia de Santos segir aðförina að styttunni ómaklega og sorglega. Hún segir við El Pais að hún muni reyna að sjá til þess að styttan verði sett upp eins og áætlað er.

Frétt BBC um málið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert