Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði það til í dag að neitunarvald einstakra ríkja sambandsins í skattamálum yrði afnumið. Það er að ekki yrði lengur krafist einróma samþykkis vegna ákvarðana um skattamál á vettvangi þess.
Fram kemur í frétt AFP að Evrópusambandssinnar í Brussel hafi lengi stefnt að því að koma á samræmdum skattamálum innan Evrópusambandsins en ýmis minni ríki innan sambandsins hafa einkum lagst gegn þeim hugmyndum. Ekki síst Írland.
Framkvæmdastjórnin hyggst hefja viðræður við ríki Evrópusambandsins um að ekki þurfi lengur einróma samþykki vegna nýrrar lagasetningar frá sambandinu í skattamálum og þess í stað verði aðeins farið fram á aukinn meirihluta atkvæða.
Efnahagsmálastjóri Evrópusambandsins, Pierre Moscovici, sagði við blaðamenn í dag að tímarnir væru breyttir og það að halda í einróma samþykki til þess að verja skattastefnur einstakra ríkja Evrópusambandsins væri úreld hugsun.
Skattamál og utanríkismál eru einu málaflokkar ríkja Evrópusambandsins sem heyra undir valdsvið sambandsins þar sem enn er krafist einróma samþykkis þeirra en áður þurfti einróma samþykki ríkjanna við ákvarðanatöku í flestum málum.