Hnífstunga í Ósló talin hryðjuverkaárás

Hnífstunga í Ósló í gærmorgun er rannsökuð sem hryðjuverk.
Hnífstunga í Ósló í gærmorgun er rannsökuð sem hryðjuverk. AFP

Norskir fjölmiðlar loga nú stafna á milli eftir að öryggislögreglan PST gaf það út að kona, sem stungin var í Kiwi-verslun við Møllergata í miðborginni í gærmorgun, kunni að vera fórnarlamb hryðjuverkaárásar.

Lögreglunni barst tilkynning í hádeginu í gær um konu sem stungin hafði verið í bakið í versluninni og mætti fjölmennt lögreglulið þegar á staðinn. Árásarmaðurinn, rússneskur ríkisborgari á þrítugsaldri, var handtekinn í nágrenninu skömmu síðar.

Fórnarlambinu var komið undir læknishendur í skyndingu en ekki er ljóst, eftir því sem norska ríkisútvarpið NRK greinir frá, hve alvarleg sár þess eru.

Sagðist vilja ráða marga af dögum

Við yfirheyrslur reyndist framburður árásarmannsins þess eðlis að öryggislögreglan PST yfirtók rannsókn málsins í dag. Benedicte Bjørnland, forstöðumaður PST, segir manninn hafa komið til Noregs frá Svíþjóð í gærmorgun og hafi hann lýst því yfir hjá PST að ásetningur hans hefði staðið til þess að koma mörgum manneskjum fyrir kattarnef í hryðjuverkaárás.

Hún segir of snemmt að tengja manninn við ákveðin hryðjuverkasamtök en segir framburð hans hafa orðið til þess að lögregla rannsaki málið sem hryðjuverk.

Árásarmaðurinn gerði einnig tilraun til að stinga starfsmann á búðarkassa í Kiwi en hafði ekki erindi sem erfiði.

PST gaf það út í áhættumati sínu í fyrra að mesta ógnin sem steðjaði að Noregi nú væru mögulegar árásir einstaklinga og hópa undir áhrifum íslamskrar öfgahugmyndafræði.

NRK

VG

Aftenposten

Dagbladet

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert