Sáttarboði Trumps hafnað um leið

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti lagði í kvöld fram sáttarboð vegna deilu hans og meirihluta þingsins, þar sem demókratar ráða ríkjum, vegna fjárlagafrumvarps. Deilt er um fjárveitingu upp á 5,7 milljarða dala sem Trump vill fá til að byggja vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, en veggurinn var eitt af helstu kosningaloforðum hans. Trump tilkynnti um boðið í ávarpi í kvöld.

Bandaríska alríkið hefur nú verið að stórum hluta lamað í 29 daga vegna ágreiningsins, en þriðjungur alríkisstofnana hefur verið án fjármagns. Hefur það haft áhrif á yfir 800 þúsund starfsmenn sem hafa verið launalausir.

Í sáttaboðinu fólst að hann myndi framlengja til þriggja ára heimild fyrir innflytjendur sem falla undir DACA-úrræði, en með því fá ung­ir inn­flytj­end­ur leyfi til að dvelja í Banda­ríkj­un­um á ákveðnum for­send­um. Þeir sem hafa notið góðs af úrræðinu eru gjarn­an kallaðir Drea­mers. Trump hefur hingað til verið mjög mótfallinn þessu úrræði.

Auk þess fólst í boðinu að framlengja landsvistarleyfi fyrir fólk sem kemur frá stríðshrjáðum löndum eða löndum þar sem náttúruhamfarir hafa geisað yfir. Kallast það úrræði TPS (e. Temporary protection status). Samtals falla um 700 þúsund manns undir DACA-úrræðið og 300 þúsund undir TPS-úrræðið.

Sáttaboði Trumps var hins vegar ekki vel tekið af leiðtogum demókrata í þinginu. Sagði Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar, í þinginu, áður en Trump flutti erindi sitt, að tillögur Trumps væru samansafn af hugmyndum sem hafi áður verið hafnað. Sagði hún tillögur hans óásættanlegar og að þær sýndu ekki fram á að þær myndu endurheimta stöðugleika í líf fólksins sem félli undir þessi tvö úrræði.

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert