Þögull faraldur þjáninga

Takið hendurnar af stúlkunum okkar.
Takið hendurnar af stúlkunum okkar. AFP

Mary var níu ára gömul þegar endir var bundinn á barnæsku hennar á hrottafenginn hátt. Þrír menn gáfu henni róandi lyf og nauðguðu henni. 

Móðir hennar, sem hafði verið að þvo fatnað í á skammt frá heimili þeirra í höfuðborg Sierra Leone, Freetown, fann litlu stúlkuna liggjandi á jörðinni, vitstola og alla ataða blóði. „Þeir tróðu skítugu fötunum upp í mig og nauðguðu mér,“ segir stúlkan í viðtali við AFP-fréttastofuna. Mary er ekki hennar rétta nafn en það er ekki birt til þess að verja stúlkuna og fjölskyldu hennar.

Fjölskyldan tilkynnti nauðgunina til lögreglu og gaf upp hverjir hefðu nauðgað barninu en engar ákærur voru gefnar út. 

Frá Freetown.
Frá Freetown. AFP

Þúsundum barna og ungra stúlkna var nauðgað í Sierra Leone í fyrra. Þögull faraldur þjáninga barna í einu af fátækustu löndum heims. Samkvæmt gögnum frá lögreglu fjölgaði tilkynningum um kynferðis- og kynbundið ofbeldi þar gríðarlega í fyrra. Alls voru kærurnar 8.505 talsins en voru 4.750 árið 2017. Íbúar Sierra Leone eru 7,5 milljónir talsins. Af þeim voru tæplega 2.600 kærur þar sem börnum hafði verið nauðgað.

Líkt og víðast hvar í heiminum eru málin margfalt fleiri en þessar tölur segja því það er aðeins brotabrot þeirra sem verða fyrir slíku ofbeldi sem kæra.

Sorglegt, ómannúðlegt og villimannlegt

Chernor Bah, sem starfar hjá Sameinuðu þjóðunum, segir að í Sierra Leone viðgangist nauðgunarmenning en hann er einn þeirra sem tók þátt í mótmælum gegn ofbeldi gagnvart konum í Freetown í desember. Asma James sem skipulagði mótmælin segir að nauðganir gagnvart börnum séu samfélagslegt vandamál í Sierra Leone. 

Hún segir ástandið vera sorglegt, ómannúðlegt og villimannlegt og nauðsynlegt sé að tekið sé á þessu vandamáli af allri þjóðinni. 

Nokkrum vikum áður en mótmælin fóru fram hafði hryllilegt mál skekið þjóðina. Fimm ára gamalli stúlku var nauðgað af tæplega þrítugum ættingja. Hann nauðgaði henni í endaþarm með þeim afleiðingum að hún hlaut mænuskaða af. Læknar við Aberdeen-heilsugæsluna í Freetown telja að hún muni aldrei framar geta gengið. Starfsfólk við heilsugæsluna sinnir einkum konum og stúlkum sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og nauðgunum. 

Mikil reiði greip um sig í landinu þegar fréttist af árásinni og var þess krafist að níðingurinn yrði dæmdur í lífstíðarfangelsi. Meðal þeirra sem þess kröfðust var forseti landsins, Julius Maada Bio. 

„Menn sem nauðga stúlkum eiga skilið að fá lífstíðarfangelsisdóm,“ sagði Bio og eiginkona hans setti á laggirnar herferð sem nefnist: Takið hendurnar af stúlkunum okkar.

Kynbundið ofbeldi á aldrei rétt á sér, aldrei.
Kynbundið ofbeldi á aldrei rétt á sér, aldrei. AFP

Fréttir af nauðgunum og barnaníði, svo sem nauðgunum á börnum, verða sífellt algengari  samkvæmt upplýsingum frá samtökum sem veita fórnarlömbum kynferðislegs ofbeldis sem og kynbundins ofbeldis læknisaðstoð og ráðgjöf. Tölur sem samtökin hafa birt sýna að 76% fórnarlamba nauðgana sem leituðu til þeirra voru 15 ára eða yngri. Jafnvel smábörn. Önnur fórnarlömb eru á aldrinum 16-20 ára. Í hverjum mánuði verða að meðaltali 149 fórnarlömb nauðgana þunguð af völdum níðingsins. „Það er komið með börn til okkar sem eru í fötum útötuðum í blóði,“ segir framkvæmdastjóri samtakanna, Daniel Kettor. 

Yngsta fórnarlambið sjö mánaða

Á fyrstu tíu mánuðum síðasta árs voru tæplega 1.500 nauðganir tilkynntar í höfuðborginni. Yngsta fórnarlambið var sjö mánaða gamalt og það elsta 85 ára. Að sögn Kettor hafa sex þeirra smitast af HIV og 484 af fórnarlömbunum urðu þunguð eftir níðinginn. Læknar sem starfa á miðstöðinni rannsaka þá sem þangað leita og rannsaka hvort sæðisleifar eða blóð geti gefið vísbendingu um hver ofbeldismaðurinn er. 

Eitt af því sem er nefnt sem möguleg ástæða fyrir fjölgun nauðgana í Síerra Leone undanfarin ár er ofbeldisaldan sem ríkti í landinu. Þegar borgarastríð geisaði í landinu 1991-2001 var þúsundum kvenna og stúlkna nauðgað og þær beittar öðru kynferðislegu ofbeldi, samkvæmt skýrslu Mannréttindavaktarinnar frá árinu 2003. Þar kom fram að kynferðislegt ofbeldi hafi verið notað sem vopn í stríðinu.

Kynferðislegu ofbeldi var beitt markvisst sem stríðstæki í borgarastyrjöldinni í …
Kynferðislegu ofbeldi var beitt markvisst sem stríðstæki í borgarastyrjöldinni í Sierra Leone. AFP

76% voru fórnarlömb hópnauðgunar

Bandarísku mannúðarsamtökin Physicians for Human Rights (PHR) áætla að allt að 257 þúsund konur hafi verið fórnarlömb kynbundins ofbeldis í borgarastyrjöldinni. Flestar árásirnar voru af hálfu Revolutionary United Front, hreyfingarinnar sem hóf stríðið, en fleiri fylkingar eru einnig taldar hafa tekið þátt í ofbeldinu sem fólst einkum í nauðgunum, kynferðislegri ánauð og þvinguðum hjónaböndum.

Mjög algengt var að fjöldi karla tæki þátt í ofbeldinu gagnvart einu fórnarlambi en rannsóknir benda til þess að 76% fórnarlambanna hefðu orðið fyrir hópnauðgun. Fjölmörg þeirra smituðust af kynsjúkdómum og einhver þeirra neyddust til þess að fæða börn ofbeldismannanna. Eða eins og segir í skýrslu Mannréttindavaktarinnar: Ofbeldið var útbreitt og kerfisbundið.

Stríðsglæparéttarhöld vegna stríðsins hófust árið 2006 og hafa á annan tug karla hlotið dóm fyrir kynbundið ofbeldi en við réttarhöldin var í fyrsta skipti litið á þvinguð hjónabönd sem glæp gegn mannkyninu. 

Kynferðislegt ofbeldi gagnvart konum og börnum er útbreidd og skaðleg hegðun sem enn á sér djúpar rætur í landinu þrátt fyrir ýmsar aðgerðir til þess að draga úr því,“ segir formaður endurbótanefndar, Rhoda Suffian-Kargbo Nuni. 

Í mörgum tilvikum sleppur níðingurinn án refsingar og oft komast mál sem kærð eru aldrei til dómstóla heldur daga uppi í kerfinu að sögn þeirra sem koma að málaflokknum. Í fyrra var sakfellt í 26 nauðgunarákærum en í mörgum tilvikum er ekki hægt að ákæra þar sem mikill skortur er á rannsóknarstofum sem geta gert erfðaefnarannsóknir sem hægt er að nýta við málsóknina. Í öðrum tilvikum hefur fórnarlambið einfaldlega ekki ráð á því að greiða málskostnaðinn. Á sama tíma hefur lögreglan takmarkaða möguleika á að rannsaka ásakanir um kynbundið eða kynferðislegt ofbeldi.

AFP

Mannréttindaráð Sierra Leone vakti athygli á þessu árið 2017 og þar var líka bent á spillingu og vanmátt réttarkerfisins en í mörgum tilvikum er gerð sátt fyrir dómi eða mál komast einfaldlega aldrei til kasta dómstóla. 

Lögum samkvæmt er nauðgun saknæm og liggur fimm til 15 ára fangelsisrefsing við henni. En afar fátítt er að dómar séu í samræmi við það. Má þar benda á sakamál sem mjög var fjallað um í fyrra en þar var 56 ára gamall karl dæmdur fyrir að nauðga sex ára gömlu barni. Hann fékk eins árs fangelsisdóm fyrir athæfið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert