Klámblöð úr hillum verslana í Japan

Verslanir 7-Eleven og Lawson í Japan eru opnar allan sólarhringinn …
Verslanir 7-Eleven og Lawson í Japan eru opnar allan sólarhringinn og selja allt frá heitum drykkjum til frosinna máltíða. AFP

Tvær stærstu smávöruverslunarkeðjur Japans ætla að fjarlægja klámtímarit úr hillum sínum fyrir heimsmeistaramótið í rúgbí 2019 og Ólympíuleikana í Tókýó 2020. BBC greinir frá.

Annars vegar er um að ræða verslunarkeðjuna 7-Eleven, sem rekur yfir 20 þúsund verslanir víðs vegar um Japan. Í tilkynningu frá keðjunni segir að þetta sé gert til þess að skapa almennilegt verslunarumhverfi fyrir alla viðskiptavini.

Hin verslunarkeðjan sem mun taka klámblöð úr sölu fyrir íþróttaviðburðina tvo er aðalkeppinautur 7-Eleven í Japan, Lawson Inc., sem rekur um 14 þúsund verslanir.

Verslanir 7-Eleven og Lawson í Japan eru opnar allan sólarhringinn og selja allt frá heitum drykkjum til frosinna máltíða, allt frá skriffærum til neyðarskyrta fyrir stressað viðskiptafólk.

„Áður fyrr var 7-Eleven aðallega notað af karlkyns viðskiptavinum, sem keyptu þar drykki og skyndibita, og vöruúrval okkar var ákveðið út frá því,“ segja forsvarsmenn 7-Eleven í samtali við Reuters.„Hins vegar hefur hlutverk og notkun 7-Eleven breyst á undanförnum árum, og eru verslanirnar nú einnig orðnar áfangastaðir fjölskyldna, barna og eldra fólks.“

Aðeins 1% allrar sölu verslunarkeðjunnar má rekja til klámblaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert