Fátt fangar athygli fótboltaheimsins jafn mikið þessa stundina og hvarf flugvélar sem flutti Emiliano Sala, nýjasta leikmann Cardiff í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Leit hefur enn engan árangur borið. En hver er þessi argentínski framherji sem var aðeins nýlega farinn að vekja alþjóðlega athygli?
Sala er lýst sem rólegum einstaklingi utan vallar, sem helst fer ekki í keppnisferðir eða útileiki án þess að taka með sér góða bók. Hann spilar á gítar og var tíður gestur á kaffihúsum Nantes á morgnana með labrador-hundinn sinn meðferðis. Fram undan var nýtt líf og stórt tækifæri í öðru landi hjá framherja sem hefur alltaf lagt mikið á sig.
Sala er fæddur 31. október 1990 í Santa Fe í Argentínu. Hann byrjaði að æfa fótbolta ungur að árum þar sem landi hans og goðsögn Gabriel Batistuta var átrúnaðargoðið. Ferill Sala í Evrópu hófst þegar hann fluttist til Frakklands og fór inn í unglingalið Bordeaux, þar sem hann fékk sinn fyrsta atvinnumannasamning tvítugur að aldri.
Tækifærin voru hins vegar af skornum skammti og hann spilaði aðeins ellefu leiki fyrir Bordeaux á árunum 2012-2015. Á þeim tíma var hann þrisvar lánaður í lið í neðri deildum Frakklands, skoraði 19 mörk í 3. deildinni fyrir Orléans tímabilið 2012-2013 og 18 mörk fyrir Niort í 2. deild tímabilið eftir. Hann var smátt og smátt að minna á sig. Tímabilið 2014-2015 var hann lánaður til Caen í 1. deildinni og skoraði fimm mörk seinni hluta tímabils. Sala hafði vakið athygli Nantes í sömu deild, sem borgaði eina milljón evra fyrir hann sumarið 2015 og gaf honum fimm ára samning.
Mikil endurnýjun varð á liði Nantes þetta sumar og Sala var ekki kominn á þann stað að hann gæti verið aðalframherji liðs í frönsku 1. deildinni. Hann var þess vegna ekki eini framherjinn sem félagið festi kaup á þetta sumar. Hinn var Kolbeinn Sigþórsson, sem raðað hafði inn mörkum hjá Ajax í Hollandi.
Hér má sjá þá félaga saman ásamt liðsfélögum hjá Nantes þetta fyrsta tímabil.
Illa gekk hjá Nantes þetta fyrsta tímabil þar sem Sala og Kolbeinn voru liðsfélagar. Liðið skoraði 33 mörk í 38 leikjum, en aðeins botnlið Troyes skoraði færri. Nantes sigldi þó lygnan sjó og hafnaði að lokum í 14. sæti af 20 liðum. Sala skoraði aðeins sex mörk í 31 leik í deildinni en varð engu að síður markahæsti leikmaður liðsins á tímabilinu.
Sala fékk meira traust tímabilið eftir, 2016-2017. Kolbeinn hafði meiðst eftir EM og var að lokum lánaður til Galatasaray í Tyrklandi. Nantes hafnaði í 7. sæti deildarinnar og Sala, sem tók við treyju númer 9 af Kolbeini, spilaði af meira öryggi en áður. Líkamlegur styrkur hans og skallatækni gerði varnarmönnum erfitt fyrir og hann skoraði 12 mörk á tímabilinu.
Fyrir tímabilið 2017-2018 kom nýr maður í stjórastólinn hjá Nantes, enginn annar en Claudio Ranieri sem hafði nokkru áður komið fótboltaheiminum í opna skjöldu með því að gera Leicester að Englandsmeisturum 2016. Sala reyndist honum traustur framherji sem skilaði alltaf sínu og kom þeim vel saman. Sala skoraði 12 mörk annað tímabilið í röð og var markahæsti leikmaður liðsins. Ranieri hefur lýst Sala sem yndislegri manneskju og miklum bardagamanni.
Ranieri var aðeins þetta eina tímabil hjá Nantes og síðasta sumar tók Portúgalinn Miguel Cardoso við stjórn liðsins. Hann hafði minni trú á Sala, sem var í varahlutverki hjá liðinu í byrjun tímabilsins í haust. Cardoso var hins vegar rekinn í október og Bosníumaðurinn Vahid Halilhodzic tók við. Undir hans leiðsögn blómstraði Sala sem aldrei fyrr og vakti athygli um alla Evrópu.
Í aðeins öðrum leik Halilhodzic með Nantes skoraði Sala þrennu gegn Toulouse og varð fyrsti leikmaður Nantes sem skorar þrennu í deildinni í 12 ár. Þá var ekki aftur snúið. Eftir átta mörk í fyrstu sex leikjum Halilhodzic með liðið var aðeins undrabarnið Kylian Mbappé með betra hlutfall marka á mínútu. Sala var strax búinn að skora 12 mörk, jafn mörg og tímabilin á undan. Hann var hæstánægður hjá Nantes en varð mjög eftirsóttur og ákvað að taka slaginn.
Hann hafnaði tilboði frá Kína, vafalaust upp á gull og græna skóga, til þess að semja við Cardiff í ensku úrvalsdeildinni. Fór frá Kolbeini til Arons Einars Gunnarssonar og félaga og varð dýrasti leikmaðurinn í sögu Cardiff, sem borgaði því sem nemur 15 milljónum punda fyrir þjónustu hans.
„Að fara til Cardiff var stórt skref á ferlinum. Hann er strákur sem hefur þurft að berjast fyrir öllu og er mjög auðmjúkur,“ sagði faðir hans Horacio.
Harðduglegur en auðmjúkur á sama tíma er góð lýsing á Sala, jafnt innan vallar sem utan.
Eftir að félagaskiptin til Cardiff voru frágengin 19. janúar birti Sala skemmtilega færslu á samfélagsmiðlum: „Það er kominn nýr Sala í ensku úrvalsdeildina.“
Skælbrosandi með bláu treyjuna þar sem hann undirstrikaði hvað hann væri ánægður með sitt nýja félag og væri æstur í að sanna sig í nýrri deild. Aðeins átti eftir að ganga frá síðustu lausu endunum í Nantes – og kveðja gömlu liðsfélagana.
Mánudagskvöldið 21. janúar fór hann af stað frá Nantes til Cardiff í lítilli eins hreyfils vél af gerðinni Piper Malibu ásamt flugmanni. Áður en hann fór í loftið birti hann mynd af sínum gömlu liðsfélögum í Nantes sem tekin var á kveðjustund, sem engan grunaði að yrði í svo bókstaflegri merkingu.
Um klukkan 20.30 hvarf vélin af ratsjám á leiðinni frá Nantes til Cardiff. Sagt er að vélin hafi verið á flugi í um 5 þúsund metra hæð, en óskað eftir því að fá að lækka flugið. Síðast þegar vitað er til hennar var hún í rúmlega 2 þúsund metra hæð við Casquets-vitann í Ermarsundi. Ekkert neyðarkall barst frá vélinni, en farið var að svipast um eftir henni.
Erfið skilyrði gerðu leitarfólki hins vegar erfitt fyrir. Var ölduhæð þá um tveir metrar og mikil rigning. Farið var af stað aftur í birtingu í gærmorgun og þá fór sá orðrómur á kreik að Sala væri um borð. Það var svo staðfest þegar líða tók á morguninn. Cardiff aflýsti þá æfingu, þeirri fyrstu sem Sala átti að mæta á hjá félaginu.
Fótboltaheimurinn fylgdist agndofa með fréttum og vonaði það besta en óttaðist það versta. Rétt áður en leit var hætt í gær fundust fljótandi hlutir í Ermarsundi sem talið er að gætu verið úr vélinni. Ekki var þá búið að staðfesta hvort um væri að ræða brak úr vélinni. John Fitzgerald, sem stýrir leitinni, segir að líkur séu á því að flugvélin hafi rifnað í sundur þegar hún brotlenti í sjónum. Ekki er búist við því að Sala eða flugmaðurinn finnist á lífi.
Stuðningsmenn Nantes söfnuðust saman í borginni í gærkvöldi, slegnir yfir fréttunum. Og á meðan er enn beðið frétta um afdrif vélarinnar, flugmannsins og Emiliano Sala – sem var svo tilbúinn að sanna sig í ensku úrvalsdeildinni.