Þúsundir evrópskra skólabarna mættu ekki í skóla eftir hádegi í dag, heldur tóku þess í stað þátt í mótmælum gegn loftslagbreytingum fyrir utan ráðhús borga í Sviss og Þýskalandi. Eru mótmæli krakkanna innblásin af aðgerðum Gretu Thunberg, 16 ára sænsks aðgerðasinna, sem nú er stödd í Davos þar sem hún ætlar að hvetja Alþjóðaefnahagsráðið (WEF) til að tryggja æskunni grænni framtíð.
BBC segir 35.000 unglinga hafa mótmælt í Brussel í gær. Báru unglingarnir spjöld með áletrunum á borð við „Risaeðlurnar héldu líka að þær hefðu tíma“ og „Vertu hluti af lausninni ekki menguninni“. Þá fóru þúsundir skólabarna í Sviss í verkfall á föstudaginn í síðustu viku til að krefjast aðgerða gegn loftslagsbreytingum.
Þýskir nemar hafa þá nýtt sér samfélagsmiðilinn Twitter til að hvetja hver annan til aðgerða undir myllumerkinu #FridaysForFuture eða föstudagar til framtíðar.
Vilja krakkarnir með gjörðum sínum hvetja leiðtoga heims og forsvarsmenn fyrirtækja til að standa við markmið Parísarsamningsins.
Thunberg sjálf hefur setið fyrir utan sænska þinghúsið á hverjum föstudegi frá því haust og vöktu aðgerðir hennar athygli alþjóðasamfélagsins á loftslagsráðstefnunni í Póllandi í lok síðasta árs, en þangað mætti hún til að ræða við ráðamenn. Thunberg tók svo lestina frá Svíþjóð til Sviss í vikunni til að komast á Davos-ráðstefnuna. Ferðalagið tók 32 tíma, en hún vill með ferðamátanum undirstrika þörfina fyrir hreinni samgöngumáta.
Ekki eru þó allir sáttir við Thunberg og hafa sumir notendur samfélagsmiðla m.a. gagnrýnt hana fyrir að hvetja krakka til að skrópa, fyrir athyglissýki og fyrir að vinna starf þrýstihópa umhverfissinna.
Jakob Blasel, einn þýsku stuðningsmanna Thunberg, sagði við BBC að baráttan gegn loftslagsbreytingum væri mikilvægari en námið. „Eftir allt saman af hverju ættum við að læra ef við eigum enga framtíð?“ sagði hann.
Sjálf ávarpaði Thunberg leiðtoga viðskiptalífsins í Davos. „Sumt fólk, sum fyrirtæki og sumir þeirra sem taka ákvarðanirnar vita nákvæmlega hversu ómetanlegum verðmætum þeir eru búnir að vera að fórna til að halda áfram að græða meira magn peninga en hægt er að ímynda sér [...] og ég held að margir ykkar sem hér eru í dag, tilheyri þeim hópi,“ sagði Thunberg.
„Skilaboð mín voru þau að mest af útblæstrinum er verk nokkurra mjög ríkra einstaklinga sem eru staddir hér í Davos,“ sagði Thunberg við BBC og kvað suma áheyrenda sinna hafa brugðist við gagnrýninni með taugaveikluðum hlátri.
„Þessir einstaklingar hafa mikið vald og gætu raunverulega breytt einhverju. Þess vegna finnst mér ábyrgð þeirra vera mikil. Þeir verða að setja efnahagsmarkmið sín til hliðar til að tryggja lífvænlegar aðstæður fyrir mannkynið í framtíðinni.“