Tapið sem hlaust af lokun hluta bandarískra alríkisstofnana síðasta mánuðinn nemur um 11 milljörðum dollara, eða um tvöfalt meira fjármagni en Donald Trump Bandaríkjaforseti fór fram á að veitt yrði til byggingar múrs á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Þetta kemur fram í skýrslu fjárlagaskrifstofu bandaríska þingsins (CBO).
Lokunum bandarískra ríkisstofnana hefur verið aflétt tímabundið, en Trump greindi frá því á föstudag að þriggja vikna hlé verði gert á lokununum á meðan viðræður þings og forseta um fjárlagafrumvarpið halda áfram.
Deilan snýst sem fyrr um fjármögnun múrsins, en Trump hefur til þessa neitað að undirrita fjárlagafrumvarpið, þar sem demókratar hafa ekki viljað gera ráð fyrir 5,7 millarða dollara fjármögnun múrsins.
Í skýrslu fjárlagaskrifstofunnar sem gefin var út í dag kemur fram að um 8 milljarðar dollarar, eða sem nemur 0,02% af vergri landsframleiðslu, muni skila sér aftur í hagkerfið þegar lokun alríkisstofnana hefur verið afnumin að fullu.
Skaðinn sem „pólitíska bröltið“ í Washington síðustu vikur hefur valdið er óumflýjanlegur en hefði getað orðið mun meiri ef lokunin stæði enn yfir, að því er fram kemur í skýrslunni.
Heildaráhrif sem deilan um fjárlög mun hafa á hagkerfið eiga hins vegar enn eftir að koma í ljós þar sem annað fjárlagafrumvarp er til umræðu og hefur þingið til 15. febrúar til að koma í veg fyrir frekari lokanir.
Fréttin hefur verið uppfærð.