Flugstjóri farþegaþotu sem brotlenti í Nepal í mars í fyrra virðist hafa fengið taugaáfall að því er fram kemur í lokaskýrslu nefndar sem rannsakaði flugslysið.
Vélin var að fljúga frá Dhaka í Bangladess með 71 farþega um borð. Eldur kviknaði í vélinni þegar hún kom inn til lendingar í Katmandú með þeim afleiðingum að 51 lét lífið.
Fram kemur á vef BBC, að í fyrstu hefði verið talið að rekja mætti slysið til slæmra fjarskipta við flugturn.
Rannsakendur segja nú að flugstjórinn hafi verið að bölsótast í samtölum við aðra í áhöfn vélarinnar. Þá hafi hann einnig verið að reykja í flugstjórnarklefanum.
Rannsóknarnefnd flugslysa í Nepal segir í skýrslunni að flugstjórinn hafi fundið fyrir mikilli streitu og átt mjög erfitt andlega vegna þess að samstarfskona hans, sem var ekki um borð í vélinni, hefði efast um hæfni hans sem flugkennara.
Flugstjórinn, sem var 52 ára gamall, var leystur frá störfum árið 1993 þegar hann var hjá flugher Bangladess. Fram kemur í skýrslunni að ástæðan hafi verið sú að hann hafi þjáðst af þunglyndi. Hann var síðar metinn hæfur til að stýra farþegaþotum. Í nýlegum læknisskýrslum er hvergi minnst á nein einkenni hjá flugstjóranum.