Stjórnmálaflokkar í ríkjum Evrópusambandsins sem kenndir eru við lýðhyggju sjá fram á að ná sterkari stöðu á þingi sambandsins að loknum kosningum til þess í vor. Fyrir vikið hafa margir flokkanna lagt á hilluna hugmyndir um útgöngu úr Evrópusambandinu og leggja þess í stað áherslu á að breyta sambandinu innan frá eða eyða því.
Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph. Þannig hafi stjórnmálaflokkurinn Svíþjóðardemókratar í Svíþjóð tilkynnt að þeir hafi lagt til hliðar stefnu sína um að framfæri þjóðaratkvæði í landinu um veru þess í Evrópusambandinu með hliðstæðum hætti og gert var í Bretlandi sumarið 2016.
Fleiri lýðhyggjuflokkar hafa breytt stefnu sinni með þessum hætti að undanförnum misserum. Þar á meðal Franska þjóðfylkingin, Valkostur fyrir Þýskaland (AfD), finnski flokkurinn Blá framtíð og ítalska Bandalagið. Vaxandi fylgi margra slíkra flokka sé að mati forystumanna þeirra tækifæri til þess að breyta Evrópusambandinu.
Fram kemur að bæði efasemdamenn um Evrópusambandið og stuðningsmenn þess líti á kosningarnar til þings sambandsins í vor sem baráttu um sál þess. Þannig hafi pólitískir forystumenn innan Evrópusambandsins í báðum fylkingum keppst við að undanförnu um að lýsa því hver framtíðarsýn þeirra væri fyrir sambandið.