Segir að lág fargjöld séu ástæðan

Michael O'Leary, forstjóri Ryanair.
Michael O'Leary, forstjóri Ryanair. AFP

Eftir uppskiptingu Ryanair verður nýtt fyrirkomulag fyrirtækisins með svipuðu móti og fyrirkomulag International Airlines Group, sem er móðurfélag átta flugfélaga, þar á meðal British Airways. Greint var frá uppskiptingu Ryanair í morgun, en það hefur tapað talsverðum upphæðum undanfarið og segir Michael O'Leary, forstjóri félagsins, að rekja megi það til lágra fargjalda og harðrar samkeppni. Fréttavefur BBC greinir frá þessu. 

Tap Ryanair nam 20 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi. Talsmenn Ryanair hafa bent á að tapið megi einnig rekja til hærri olíugjalda, en þau hafi þó haft umtalsvert meiri áhrif á samkeppnisaðila fyrirtækisins.

O‘Leary verður áfram forstjóri Ryanair-samsteypunnar eftir 24 ára setu og mun hafa yfirumsjón með innkaupum, kaupum á vélum og mögulegum kaupum á samkeppnisaðilum. Dótturfélögin fjögur verða; Ryanair DAC, Laudamotion, Ryanair Sun og Ryanair UK.

Höfuðstöðvar aðalflugfélags samsteypunnar, Ryanair DAC, verða í Dublin en austurrísku og pólsku flugfélögin Laudamotion og Ryanair Sun verða rekin sjálfstætt undir stjórn forstjóra og framkvæmdastjóra, sem heyra undir Michael O'Leary. Ryanair UK mun enn hafa höfuðstöðvar í London.

Ryanair Sun er með höfuðstöðvar í Póllandi og var stofnað árið 2017 sem viðbót við móðurfélagið Ryanair og austurríska lággjaldaflugfélagið Laudamotion var keypt af Ryanair í desember 2018. 

Hinn umdeildi Michael O‘Leary

Forstjórinn umdeildi, Michael O‘Leary, er vel þekktur og hefur í áranna rás vakið athygli fyrir hispurslaus ummæli sín um starfsfólk og kúnna Ryanair. Þar að auki hefur hann látið ýmis ummæli falla í garð stjórnvalda, þjóðfélagshópa, umhverfisverndarsinna og fræðimanna.

Þegar farþegar óskuðu eitt sinn eftir endurgreiðslu á fargjaldi sagði hann: „Við viljum ekki heyra þetta væl. Engin endurgreiðsla er á útlögðum kostnaði, er það eitthvað flókið?“

Eftir erfitt gengi árið 2014 ákváð Ryanair að bæta framkomu við viðskiptavini en þau markmið stöðvuðu ekki félagið í fyrirætlunum um að innleiða nýjar reglur um farangur fyrr á árinu, en þær fela í sér að kúnnar sem taka eitthvað umfram litla tösku í flug þurfa að greiða gjald.

O‘Leary hefur einnig gagnrýnt Brexit harðlega og tjáð áhyggjur af áhrifum þess á flugumferð milli Bretlands og Evrópusambandsþjóða, og haft áhyggjur af mögulegum erfiðleikum á landamærum Norður-Írlands og Írlands.

Michael O‘Leary kemur úr efnaðri fjölskyldu en hann vann sem skattaendurskoðandi áður en hann hóf störf hjá Tony Ryan, en hann gekk í Clongowes-háskólann með syni hans. Ryan stofnaði flugfélagið Ryanair árið 1985 sem byrjaði sem lítið flugfélag sem starfaði einungis milli Waterford og Gatwick.

Fyrirtækið stóð frammi fyrir erfiðleikum vegna kostnaðar og fárra farþega en árið 1988 gekk O‘Leary til liðs við félagið og var ráðinn sem fjármálastjóri fyrirtækisins. Í byrjun ráðlagði hann Ryan að hætta með flugfélagið en ákveðið var að láta reyna á lággjaldafyrirkomulag, sem bráðabirgðaúrræði. Flugfélagið var enduruppbyggt árið 1990 og árið 1994 varð O‘Leary forstjóri þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert