Meðal gesta í bandaríska þinginu í dag þegar forseti landsins, Donald Trump, flytur stefnuræðu sína er grunnskólanemi sem hefur verið lagður í einelti vegna nafns síns. Drengurinn heitir Joshua Trump og er 11 ára gamall.
Joshua Trump er ekki ættingi forsetans og er búsettur í Wilmington, Delaware. Í fréttatilkynningu frá Hvíta húsinu er tekið fram að hann hafi verið lagður í einelti vegna Trump-nafnsins en drengurinn hefur mikinn áhuga á vísindum, listum og sagnfræði.
„Hann elskar líka dýr og vonast til þess að eiga eftir að starfa í tengslum við þau í framtíðinni,“ segir enn fremur í tilkynningunni. Átrúnaðargoð Joshua Trump og besti vinur hans heitir Cody og er frændi hans. Sá er í bandaríska flughernum.
„Því miður hefur Joshua verið lagður í einelti í skóla vegna eftirnafns síns. Hann er forsetafrúnni og Trump-fjölskyldunni þakklátur fyrir þann stuðning sem þau hafa veitt honum,“ segir enn fremur í fréttatilkynningu frá forsetaskrifstofunni.
Forsetinn, forsetafrúin og þingmennirnir, sem eru 535 talsins, mega bjóða gestum í þinghúsið til að hlýða á stefnuræðu forsetans en þetta er önnur stefnuræða Trumps.
Meðal gesta forsetahjónanna í dag er fjölskylda Gerald og Sharon David, eldri hjóna sem voru myrt í janúar. Morðinginn er talinn vera óskráður innflytjandi. Eins er Matthew Charles, fyrrverandi fíkniefnasali, meðal gesta þeirra en hann breytti um stefnu í lífinu þegar hann afplánaði refsidóm í fangelsi. Hann var fyrsti fanginn sem var látinn laus vegna nýrra ákvæða í hegningarlögum Bandaríkjanna sem heimila lausn fanga.