Ríkasti maður heims, Jeff Bezos, stofnandi Amazon.com, varpar sprengju í færslu á Twitter í gærkvöldi en þar sakar hann eigendur National Enquirer um tilraun til kúgunar vegna ósæmilegra mynda.
Bezos segir að móðurfélag tímaritsins, American Media Inc (AMI), hafi viljað fá hann til þess að láta hætta rannsókn á því hvernig tímaritinu tókst að komast yfir einkaskilaboð hans. Bezos og eiginkona hans, MacKenzie, greindu frá því í janúar að þau væru að skilja. Tilkynningin var birt skömmu áður en National Enquirer birti fréttir um að Bezos ætti í ástarsambandi við aðra konu.
Bezos birti á Twitter tölvupóst sem hann fékk sendan frá AMI þar sem honum var hótað því að ósæmilegar myndir af honum og ástkonu hans, Lauren Sanchez, yrðu birtar í tímaritinu. Milljarðamæringurinn, sem meðal annars á Washington Post, segir að AMI hafi viljað fá hann til þess að birta upplogna yfirlýsingu um að fréttaflutningur National Enquirer um hann og hjákonuna ætti ekki pólitískar rætur.
Samkvæmt tölvupóstinum sem Bezos birtir lagði lögmaður AMI það til á miðvikudag að myndirnar yrðu ekki birtar gegn opinberri yfirlýsingu Bezos og teymis hans um að ekkert benti til þess að um pólitískan þrýsting væri að ræða.
Í stað þess að fallast á kúgun og þvingun, skrifar Bezos, ákvað hann að birta nákvæmlega það sem hann fékk sent frá þeim þrátt fyrir kostnað sem því fylgdi sem og hættuna á að verða að athlægi líkt og honum hafi verið hótað.
Bezos talar einnig um tengsl AMI og forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, í færslunni. Hann segir að það að hann eigi Washington Post hafi gert hlutina flókna fyrir hann þar sem hann hafi eignast óvini úr hópi valdamikils fólks, þar á meðal Donald Trump sem er vinur forstjóra AMI, David Pecker.
Stjórnendur AMI viðurkenndu nýlega að hafa unnið með kosningaskrifstofu Trumps þegar fyrrverandi Playboy-fyrirsætu voru greiddir 150 þúsund Bandaríkjadalir fyrir að þegja um meint ástarsamband við Trump.
Bezos talar einnig um játningar útgefandans um að eyðileggja stjórnmálaferil Karen McDougal með birtingu frétta um hana. Þar sem AMI samþykkti að vinna með saksóknara verður fyrirtækið ekki saksótt í málinu, að því er fram kemur í frétt BBC.
Forstjóri Amazon reynir ekki að leyna því hversu vandræðalegt það geti verið fyrir hann ef myndirnar verði birtar. Hann segist að sjálfsögðu ekki vilja að myndirnar verði birtar en hann geti ekki sætt sig við þessar starfsaðferðir fjölmiðilsins, að hóta, nota pólitíska greiða og að beina spjótum sínum að fólki í pólitískum tilgangi þar sem spilling ráði för.
Í færslunni lýsir hann tíu myndum sem ritstjóri tímaritsins, Dylan Howard, segist hafa undir höndum.
Þegar eru fleiri áhrifamiklir einstaklingar farnir að taka undir með Bezos, þar á meðal blaðamaður New Yorker, Ronan Farrow, lýsir því að hafa fengið svipaðar hótanir frá AMI.
New York Times segir í frétt um málið að daginn eftir að Bezos og eiginkona hans til 25 ára tilkynntu um skilnaðinn hafi Enquirer birt 11 blaðsíðna umfjöllun um framhjáhald Bezos og Sanchez og sagði málið stærsta rannsóknarblaðamennskuverkefni tímaritsins frá stofnun.
Enquirer sagði í fréttaflutningi sínum að starfsmenn þess hafi elt parið til fimm ríkja og ferðast 40 þúsund mílur (rúmlega 64 þúsund km) til þess að komast að hinu sanna um samband þeirra. Fylgst með þeim fara um borð í einkaþotur, lúxusbifreiðar og laumast inn á fimm stjörnu hótel. Með greininni fylgdu myndir frá æsifréttaljósmyndurum (paparazzi) þar sem þau sjást saman á stað sem tímaritið lýsir sem ástarhreiðri þeirra í Santa Monica. Jafnframt birti tímaritið textaskilaboð sem Bezos sendi Sanchez. „Ég er vitlaus í þig,“ skrifar hann samkvæmt Enquirer. „Í þig alla.“