Filippus prins, hertoginn af Edinborg og eiginmaður Elísabetar Bretlandsdrottningar, hefur sjálfviljugur skilað inn ökuskírteini sínu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Buckingham-höll.
Filippus, sem er 97 ára, komst í fréttirnar á dögunum er hann olli árekstri skammt frá Sandringham-landareigninni þar sem hann dvaldi ásamt Elísabetu. Tveimur dögum eftir áreksturinn veitti lögreglan í Norfolk Filippusi tiltal fyrir að keyra án bílbeltis og valda umferðaróhappinu. Tvær konur voru í bílnum sem Filippus keyrði á og úlnliðsbrotnaði önnur þeirra.
Í yfirlýsingunni segir að Filippus hafi íhugað málið vandlega og ákveðið að skila inn ökuskírteininu sjálfviljugur. Lögreglan í Norfolk staðfestir að prinsinn sé búinn að afhenda ökuskírteinið.