Ráðnir í 5% stöður

Norsk stéttarfélög segja pott víða brotinn í starfsemi starfsmannaleiga þar …
Norsk stéttarfélög segja pott víða brotinn í starfsemi starfsmannaleiga þar í landi sem nú sniðgangi breytingar á starfsmannalöggjöf með því að ráða verkamenn í fimm prósenta stöður. Ljósmynd/Frifagbevegelse

„Við sjáum hérna ráðningarsamninga með lágum stöðuhlutföllum, starfsmennirnir fá enga tryggingu varðandi það hvenær þeir eiga að vinna eða hvenær þeir eiga frí.“ Þetta segir Joachim Espe, formaður Félags pípulagningarmanna í Noregi, við norska ríkisútvarpið NRK og veifar bunka af samningum máli sínu til jarteikna.

Hann segir einnig frá því að verkamönnum hjá sumum starfsmannaleigum sé bannað að þiggja störf hjá öðrum fyrirtækjum eða öðrum starfsmannaleigum nema leigan sem þeir starfa hjá samþykki það áður. 

„Þetta er hrein og klár tilraun til að sniðganga þær breytingar á starfsumhverfislögunum [n. arbeidsmiljøloven, norsk lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sem enn fremur fjalla um réttindi og skyldur launþega og vinnuveitenda] sem Stórþingið samþykkti í fyrrasumar,“ segir Espe og vísar til lagabreytinga sem gildi tóku 1. janúar og kveða á um að starfsfólk starfsmannaleiga skuli njóta launa þegar það er á milli verkefna auk þess að fá skýrar upplýsingar um vinnutíma sinn og frí.

Starfsmannaleigur fari nú hins vegar sem kettir kringum heitan graut fram hjá þessum reglum með því að ráða starfsfólk sitt í allt niður í fimm prósenta stöður og greiða því svo laun samkvæmt því starfshlutfalli þá daga sem starfsfólkið er ekki með verkefni en verkefni hjá starfsmannaleigum geta verið stopul, fólk sent milli mismunandi viðskiptavina starfsmannaleiganna og þá gjarnan með eyðum á milli.

„Engin leið að lifa af fimm prósenta launum“

Fréttamenn norska ríkisútvarpsins segjast hafa fengið að sjá með eigin augum ráðningarsamninga með fimm prósenta starfshlutfalli og ræddi fjölmiðillinn í gær við ónafngreindan verkamann sem hafnaði slíkum samningi en þorði ekki að koma fram undir nafni af ótta við að það yrði notað gegn honum í hörðum heimi erlendra verkamanna hjá norskum starfsmannaleigum.

„Það er engin leið að lifa á fimm prósenta launum, þarna er bara verið að misnota mig sem vinnuafl,“ sagði verkamaðurinn sem er á þrítugsaldri. Hann kvaðst af þessum sökum hafa neitað að undirrita slíkan samning.

Vinnuveitendasamtökin NHO (Næringslivets hovedorganisasjon), innan hverra vébanda flestar starfsmannaleigurnar reka starfsemi sína, bera af sér allar sakir um að sniðganga norska vinnulöggjöf og segir Anne-Cecilie Kaltenborn, forstöðumaður verslunar- og þjónustusviðs samtakanna, lítið hæft í ásökunum.

„Þetta skil ég bara ekki. Líklega má finna dæmi um fimm prósenta samninga inn á milli ef vel er leitað en okkar félagsmenn hafa setið námskeið þar sem farið er í hvernig fylgja skuli nýju reglunum og þar er fjallað ítarlega um starfshlutföll,“ segir Kaltenborn og bætir því við að samtökin hvetji öll aðildarfyrirtæki sín til að bjóða starfsfólki sínu eins hátt starfshlutfall og kostur er.

Dagbladet og fleiri fjölmiðlar fjölluðu ítarlega um félagsleg undirboð, svarta vinnu, mansal og aðra glæpsamlega starfsemi í fyrra um það leyti sem breytingarnar á vinnulöggjöfinni voru til meðferðar í Stórþinginu.

Dagbladet (um félagsleg undirboð til sjávar)

TV2 (um verðlaun til uppljóstrara sem flettu ofan af ólöglegum aðstæðum starfsfólks verslunarrisans Coop í haust)

Aftenposten (um erlenda vörubifreiðarstjóra sem unnu fyrir 15 norskar krónur á tímann)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert