Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), Jens Stoltenberg, varaði ríki Evrópusambandsins við því í dag að snúa baki við varnarsamstarfinu við Bandaríkin.
Fram kemur í frétt AFP að varnaðarorð Stoltenbergs kæmu í kjölfar samkomulags Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Emmanuel Macron, forseta Frakklands, í síðasta mánuði um að unnið verði að því að koma á laggirnar sérstökum Evrópuher.
Þrátt fyrir að NATO styðji vinnu ríkja Evrópusambandsins við að nýta betur fjármuni sem varið er til varnarmála hefur bandalagið varað við því að sambandið komi á laggirnar tvöföldu kerfi við hlið bandalagsins sem ætti í samkeppni við það.
„Við þurfum að forðast það sjónarhorn að Evrópuríki geti verið án NATO. Vegna þess að tvær heimsstyrjaldir og kalt stríð kenndi okkur að við þurfum á öflugu bandalagi yfir Atlantshafið að halda til þess að tryggja frið og stöðugleika í Evrópu,“ sagði Stoltenberg.