Borg hinna löngu hnífa

Geir Tveit, fulltrúi í forvarnadeild lögreglunnar í Ósló, sýnir norska …
Geir Tveit, fulltrúi í forvarnadeild lögreglunnar í Ósló, sýnir norska ríkisútvarpinu brot af hnífasafninu sem lögregla hefur lagt hald á nýverið og heldur þarna á tveimur hálfgerðum sveðjum í kvöldfréttatímanum í gær. Skjáskot/Sjónvarpsfréttir NRK 13. febrúar 2019

Þrír menn hlutu alvarlega áverka og liggur einn þeirra enn þungt haldinn á Ullevål-sjúkrahúsinu í Ósló eftir að minnst tveir aðrir veittust að þeim á Storgata í miðbænum þar í borg aðfaranótt sunnudags og beittu þar eggvopnum. Enginn hefur enn verið handtekinn eftir árásina þrátt fyrir víðtæka leit lögreglu.

Í Grønland-hverfinu var 18 ára gamall maður stunginn margsinnis á þriðjudag í síðustu viku og forðaði árásarmaðurinn sér af vettvangi í leigubíl en var handtekinn skömmu síðar.

Tólf ára drengur var rændur í Storo-hverfinu á laugardag og honum ógnað með hníf meðan á ráninu stóð og á sunnudagskvöld hótuðu piltar fertugum manni með eggvopni í Stovner.

77 kærðir fyrir hnífaburð í janúar

Alls hafa átta mál, þar sem hnífum eða eggvopnum er annaðhvort beitt ellegar beitingu þeirra hótað, komið til kasta Óslóarlögreglunnar síðustu daga en tölfræðin verður enn skuggalegri ef litið er á nýliðinn janúarmánuð í heild. Þá voru 77 manns kærðir fyrir að bera hníf eða eggvopn á opinberum stöðum sem er næstum tvöföldun slíkra tilfella síðan í janúar í fyrra en þá voru þau 42.

Tilfellum, þar sem hníf eða annars konar eggvopni er beitt við hótanir um líkamsmeiðingar, hefur einnig fjölgað umtalsvert samkvæmt lögreglu sem nefnir 34 prósenta fjölgun slíkra tilfella frá 2013 og þar til í fyrra, úr 179 tilfellum í 240, langflest í miðbæ Óslóar eða nágrenni hans.

Lögreglu verður tíðrætt um hve auðvelt er fyrir Pétur og Pál að nálgast hnífa sem beinlínis eru framleiddir sem vopn og ólöglegt er að flytja inn og bera í Noregi, en slík vopn, ýmis kastvopn, fjaðurhnífar og hnúajárn í mörgum útfærslum, jafnvel með áföstu hnífsblaði, eru keypt í þúsundatali á sölusíðum á lýðnetinu og send kaupendum í pósti.

Fundu 180 eggvopn sama daginn

Tollgæslan í póstmiðstöðinni í Lørenskog, utan við Ósló, tekur undir málflutning lögreglu en þar finna Tore Westernes tollvörður og vinnufélagar hans mörg þúsund ólögleg vopn á ári og slógu öll met þegar tollverðirnir gerðu upptæka 180 ólöglega hnífa og eggvopn sama daginn í júní í fyrrasumar.

Tore Westernes tollvörður og samstarfsfólk hans í tollpóstmiðstöðinni í Lørenskog …
Tore Westernes tollvörður og samstarfsfólk hans í tollpóstmiðstöðinni í Lørenskog lögðu hald á 180 ólögleg eggvopn einn og sama daginn í fyrrasumar og segja ekkert lát á flóði slíkra vopna sem börn niður í 13 ára aldur panta sér á lýðnetinu án vandkvæða. Ljósmynd/Hampus Lundgren/Norska tollgæslan

Upplýsir tollgæslan að 40 prósent þeirra sem panta þennan varning á netinu séu piltar og ungir menn á aldrinum 13 – 28 ára. Vopnin geti hver sem vill keypt og í Lørenskog fari margir gámar af pósti í gegn hjá tollinum dag hvern, þar á meðal allir smápakkar að tveimur kílógrömmum sem til landsins komi.

Undir lok sumars í fyrra var fjöldi hnífa og eggvopna sem gerður hafði verið upptækur á árinu farinn að nálgast þúsund og þessum farmi skilar tollurinn samviskusamlega á lögreglustöðina í Lillestrøm þar sem málin stoppa yfirleitt þar sem enginn mannskapur er til að sinna þeim. „Þetta er vægast sagt óheppilegt,“ sagði Mona Hertzenberg hjá ákærusviði austurumdæmis lögreglunnar við lögregluvefinn Politiforum í haust. „Þetta er að nálgast þúsund mál hérna hjá okkur og við höfum ekki fólk til að sinna þessu,“ sagði hún enn fremur en bætti því við að til stæði að fara í það verk að flokka sendingarnar eftir búsetu viðtakenda og senda málin áfram til viðkomandi lögregluumdæmis.

Á meðan streyma eggvopnin áfram með póstinum til Noregs og hnífstungumálum og -árásum fjölgar dag frá degi.

Örlítið sýnishorn af því sem tollgæslan finnur í póstsendingum í …
Örlítið sýnishorn af því sem tollgæslan finnur í póstsendingum í miðstöðinni í Lørenskog. Stærri pakkar fara um miðstöðina í Alnabru í Ósló og er vopnaflóran þar ekki síður skrautleg. Lögreglan hefur engan tíma til að fylgja slíkum málum eftir. Ljósmynd/Norska tollgæslan

Jan Bøhler, þingmaður Verkamannaflokksins og nefndarmaður í dómsmálanefnd norska Stórþingsins, sagði í sjónvarpsfréttum norska ríkisútvarpsins NRK í gærkvöldi að við þetta ástand mætti ekki búa lengur og hann hygðist beita sér fyrir breyttri dómaframkvæmd í hnífstungumálum, meðal annars að dómar í slíkum málum yrðu skilorðsbundnir í mun færri tilfellum en raunin hefur verið í dómaframkvæmd.

NRK

VG

TV2 (samantekt miðilsins um 34 hnífamál frá 11. janúar)

Aftenposten

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert