Hvíta húsið staðfesti í kvöld að Donald Trump Bandaríkjaforseti muni lýsa yfir neyðarástandi til að reyna að komast fram hjá þinginu og fá auknar fjárveitingar til að byggja múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Trump mun skrifa undir fjárlög þingsins þar sem hann fær mun minni fjárheimildir en hann hafði áður krafist. Hann hafði áður lýst því yfir að hann væri ekki ánægður með samkomulagið sem náðist á bandaríska þinginu þar sem fallist var á að veita 1,4 milljörðum Bandaríkjadala í byggingu múrs. Það er ansi fjarri þeim 5,7 milljörðum dala sem Trump sjálfur hefur krafist.
„Forsetinn mun skrifa undir fjárlögin, eins og áður hafði komið fram, en hann mun einnig grípa til aðgerða. Þar á meðal mun hann lýsa yfir neyðarástandi, til að sjá til þess að við stöðvum vandamálin við landamærin,“ sagði Sarah Sanders, talsmaður Hvíta hússins.
Trump staðfestir samkomulagið til að koma í veg fyrir að ríkisstofnunum í Bandaríkjunum verði lokað. Forsetar Bandaríkjanna hafa rétt til þess að lýsa yfir neyðarástandi og er gert ráð fyrir því að Trump geri það á morgun.