Vilja bandaríska herinn á brott frá Jemen

Þinghúsið í Washington. Fulltrúadeild þingsins samþykkti í gær með miklum …
Þinghúsið í Washington. Fulltrúadeild þingsins samþykkti í gær með miklum meirihluta að bandaríski herinn skuli á brott frá Jemen. AFP

Fulltrúadeild bandaríska þingsins samþykkti í gærkvöldi með yfirgnæfandi meirihluta að Bandaríkin eigi að binda endi á þátttöku sína í stríðsaðgerðum sádi-arabískra stjórnvalda í nágrannaríkinu Jemen. Segir AFP-fréttaveitan þingið með þessu snupra Donald Trump Bandaríkjaforseta og samband hans við sádi-arabíska ráðamenn.

248 þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu, en 177 kusu gegn því og lögðust 18 þingmenn Repúblikanaflokksins þar með á sveif með demókrötum. Samkvæmt frumvarpinu hefur Trump 30 daga til þess að draga bandarískar hersveitir á brott frá átökum, eða svæðum sem geta haft áhrif á Jemen.

AFP segir samþykktina setja þrýsting á öldungadeild þingsins að bregðast við, en öldungadeildin samþykkti í fyrra sambærilegar aðgerðir er hún fordæmdi að bandarísk stjórnvöld haldi uppi vörnum fyrir sádi-arabíska ráðamenn. Málið sofnaði hins vegar í þinginu þar sem fulltrúadeildin, sem repúblikanar höfðu þá meirihluta í, tók málið ekki fyrir.

Það var Ro Khanna, þingmaður demókrata í fulltrúadeildinni, sem lagði frumvarpið fram og segir hann niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar færa Bandaríkin skrefinu nær því að binda endi á þátttöku sína í stríðshörmungunum í Jemen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert