Donald Trump Bandaríkjaforseti hrósaði Kínverjum í dag fyrir að beita dauðarefsingum gegn eiturlyfjasölum og hélt því fram að Bandaríkin myndu standa sig betur í baráttunni við ólögleg viðskipti eiturlyfja ef brotamenn yrðu dæmdir til dauða.
„Í Kína fá eiturlyfjasalar það sem kallað er dauðarefsing. Hjá okkur eru menn sektaðir,“ sagði Trump við fréttamenn í Hvíta húsinu í dag.
„Þannig að ef við viljum vera klár þá getum við orðið það. Við getum bundið endi á eiturlyfjavandann. Það er hægt að gera það með mun hraðvirkari hætti en áður hefur verið haldið,“ bætti Trump við.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Trump hvetur til þess að eiturlyfjasalar fái dauðarefsingu en hann talaði á slíkum nótum í mars í fyrra.