Fer neyðarástandsyfirlýsingin fyrir dómstóla?

Donald Trump Bandaríkaforseti hyggst lýsa yfir neyðarástandi í dag og …
Donald Trump Bandaríkaforseti hyggst lýsa yfir neyðarástandi í dag og fá þannig fé til að halda áfram byggingu múrs á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. AFP

Hvíta húsið staðfesti í gærkvöldi að Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti muni í dag lýsa yfir neyðarástandi til að reyna að kom­ast fram hjá þing­inu og fá aukn­ar fjár­veit­ing­ar til að byggja múr á landa­mær­um Banda­ríkj­anna og Mexí­kó, en hvað felur skilgreiningin á neyðarástandi í sér?

BBC segir lögin um neyðarástand hafa verið ætluð fyrir stundir þar sem neyðarástand ríki í þjóðfélaginu. Trump fullyrðir að slíkt neyðarástand ríki nú á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó vegna fjölda þeirra sem reyni að komast ólöglega inn til landsins. Sérfræðingar í málefnum innflytjenda draga þessa fullyrðingu forsetans hins vegar í efa, en stærsti hluti þeirra ólöglegu innflytjenda sem setjast að í Bandaríkjunum er fólk sem ekki fer úr landi eftir að ferðamannaáritunin þess rennur úr gildi.

Trump hefur hins vegar vissulega vald til að lýsa yfir neyðarástandi sem gerir honum kleift að sniðganga þingið í ákvarðanatöku sinni. Þannig geti Trump með því móti veitt fé, sem áður hafi verið eyrnamerkt t.d. hernaðarstarfi eða neyðaraðstoð, í landamæramúrinn sem hann vill reisa. 

Hugsuð svo hægt sé að bregðast hratt við

New York Times segir slíka aðgerð af hálfu forsetans brjóta í bága við þingvenjur og að hún sé líkleg til að valda því að örlög landamæramúrsins endi fyrir dómstólum.

Lögin um neyðarástand voru hugsuð til þess að gera Bandaríkjastjórn kleift að bregðast hratt við ef hættuástand skapast. Trump er ekki fyrsti forsetinn til að fullyrða að stjórnarskrá landsins veiti þeim vald til aðgerða umfram hefðbundin lög komi upp neyðarástand. New York Times segir hins vegar slíkum fullyrðingum hafa farnast illa þegar farið er með þær fyrir dómstóla.

Forsetar standi hins vegar fastari fótum þegar þeir fái þingheim til að fela framkvæmdarvaldinu að bregðast við í neyðarástandi. Lýsi forsetinn hins vegar yfir neyðarástandi verði hann að gera það formlega og segja þinginu nákvæmlega hvaða lagagreina það eigi að taka til.

Gæti tekið féð frá hernaðaruppbyggingu

New York Times segir mögulegt fyrir stjórn Trumps að vísa til tveggja lagabálka og segja þá gera yfirvöldum kleift að halda áfram að reisa landamæramúrinn án þess að fá fyrst skýrt framkvæmdaleyfi og fjárveitingu frá þinginu.

Meðal laganna sem Trump gæti vísað til eru lög sem heimila yfirmanni herafla Bandaríkjanna að stöðva borgaralegar framkvæmdir hersins á tímum sem forsetinn hefur lýst yfir neyðarástandi og beina hersveitum og fjármunum þess í stað í vinnu við „samþykkt borgaraleg verkefni, hernaðarmannvirki og almenn varnarverkefni sem teljast nauðsynleg vörnum landsins.“

Önnur lög heimila varnarmálaráðherra Bandaríkjanna í neyðartilfellum að hefja byggingu hernaðarmannvirkja, sem ekki eru aðrar lagaheimildir fyrir, teljist þær nauðsynlegar til að styðja hersveitir. Með því gæti Trump notað fé sem ætlað er fyrir hernaðarmannvirki, en sem hefur enn ekki verið eyrnamerkt sérstökum verkefnum.

Slík lög, segir William C. Banks, lagaprófessor við Syracuse-háskólann, gefa forsetanum sveigjanleika til að beina fjármunum í annað þegar hættuástand kemur upp. „Ég held að það sé samt líka mögulegt fyrir forseta að lýsa yfir neyðarástandi og reiða sig svo á vald þingsins, sem hefur sögulega getað breytt fjárlögum svo losa megi fé til gerðar landamæragirðingar,“ sagði Banks.

Lagaheimildin ekki skýr

New York Times segir lagalega heimild forsetans varðandi neyðarástandið sem hann hyggst lýsa yfir nú þó ekki vera skýra. Lýsi Trump yfir neyðarástandi vegna múrsins muni málið nær örugglega rata fyrir dómstóla.

Segir Elizabeth Goitein sérfræðingur sem New York Times ræddi við m.a. grundvöll fyrir málshöfðun á grundvelli þess að neyðarlögunum eigi ekki að beita af léttúð. Þá séu ýmis lög sem kveði á um að herinn geti ekki beint fjármunum í önnur verkefni en þau sem séu fyrirframtilgreind án samþykktar þingsins. Þingið hefur enn ekki samþykkt múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Goitein segir stjórnina þó geta reynt að halda því fram að þingið sé þegar búið að heimila hindrun á landamærunum, m.a. lögum sem heimila hernum að reisa „girðingar“ sem loka á göng fíkniefnasmyglara undir landamærin.

New York Times segir það líklega skipta engu máli hvort neyðarástandið teljist raunverulegt. Ef Trump lýsi því yfir að ástandið við landamærin sé nú orðið slíkt að það teljist neyðarástand sem réttlæti byggingu múrs án heimilda þingsins þurfi hann að takast á við þá staðreynd að ástandið hefur lítið breyst. Færri fara ólöglega yfir landamærin nú en gerðu það fyrir tæpum tuttugu árum og meirihluti þeirra Suður-Ameríkubúa sem nú koma að landamærunum gefur sig þar fram og óskar eftir hæli í Bandaríkjunum. Fari málið fyrir dómstóla skiptir slíkt hins vegar væntanlega litlu.

„Fallist einhver dómstóll á að taka afstöðu til þess hvort þetta teljist neyðarástand, lendir hann væntanlega í verulegum vandræðum,“ segir Goitein. „Ég tel það vera valdníðslu að lýsa yfir neyðarástandi sé ekkert slíkt yfirvofandi. Vandinn er hins vegar sá að þingið hefur gert slíka valdníðslu mögulega með því að setja næstum engin takmörk á völd forseta til að lýsa yfir neyðarástandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka