Sanchez boðar til þingkosninga

Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, tilkynnti í dag að þingkosningar yrðu …
Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, tilkynnti í dag að þingkosningar yrðu haldnar í landinu á ný þann 28. apríl. Það verða þriðju þingkosningarnar í landinu á fjórum árum. AFP

Pedro Sanchez, for­sæt­is­ráðherra Spán­ar til­kynnti í dag að þing­kosn­ing­ar yrðu haldn­ar á ný í lok apr­íl­mánaðar, eft­ir að þingið hafnaði fjár­laga­frum­varpi hans vegna deil­unn­ar um sjálf­stæðis­kröfu Katalón­íu. Verða þetta þriðju þing­kosn­ing­arn­ar á Spáni á fjór­um árum.

„Milli þess­ara tveggja kosta — að gera ekk­ert og halda áfram með fjár­laga­frum­varpið, eða að leyfa Spán­verj­um að segja hug sinn — þá vel ég síðari kost­inn,“ sagði Sanchez á fundi með frétta­mönn­um. 

Skoðanakann­an­ir gefa til kynna að yrði kosið nú þá myndu hægri­flokk­ar ná meiri­hluta í þing­inu, m.a. ný­stofnaður hægri öfga­flokk­ur. AFP-seg­ir að kosn­inga­bar­átt­an muni snú­ast um sjálf­stæðis­kröfu Katalón­íu, en málið er mjög um­deilt á Spáni og hafa til­raun­ir Sanchez til að ná samn­ing­um við aðskilnaðarsinna í Katalón­íu vakið mikla reiði hjá hægri­mönn­um. Hafa þeir sakað Sanchez um að láta und­an kröf­um aðskilnaðarsinna til að viðhalda völd­um sín­um.

Sanchez hef­ur nú gegnt embætti for­sæt­is­ráðherra í átta mánuði, en hann bolaði íhalds­söm­um mót­herja sín­um úr embætt­inu með van­traust­stil­lögu. Kjör­tíma­bilið allt hef­ur hins veg­ar verið storma­samt og hef­ur Sanchez, sem for­sæt­is­ráðherra brot­hættr­ar minni­hluta­stjórn­ar, til að mynda þurft að reiða sig á stuðning ým­issa ólík­legra banda­manna, til að mynda hægri öfga­flokks­ins Podemos, þjóðern­is­sinnaðra þing­manna Baska og 17 katalónskra þing­manna úr röðum aðskilnaðarsinna.

Á miðviku­dag lögðust katalónsku þing­menn­irn­ir hins veg­ar á sveif með hægri flokk­un­um og höfnuðu fjár­laga­frum­varpi Sanchez. Gerðu þeir þetta í mót­mæla­skyni við því að réttað yrði yfir leiðtog­um aðskilnaðarsinna vegna hlut­verks þeirra í þjóðar­at­kvæðagreiðslu Katalóníu­búa um aðskilnað frá Spáni, en spænsk yf­ir­völd segja at­kvæðagreiðsluna ólög­lega.

AFP seg­ir flokk Sanchez, Sósí­al­ista­flokk­inn, hafa hafið kosn­inga­bar­átt­una áður en Sanchez til­kynnti um vænt­an­leg­ar kosn­ing­ar. Þá tók Pablo Ca­sa­do, leiðtogi stjórn­ar­and­stöðunn­ar, frétt­un­um fagn­andi. „Við höf­um velt spænsku stjórn­inni,“ sagði hann sig­ur­reif­ur.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert