Utanríkisráðherra Þýskalands segir að það verði mjög erfitt að skipuleggja heimsendingar fólks frá Evrópu sem hefur tekið þátt í starfi vígasamtakanna í Sýrlandi. Það verði aðeins gert ef tryggt er að þetta fólki verði strax leitt fyrir dómara og þaðan í varðhald, segir Heiko Maas. Utanríkisráðherrann var í viðtali við þýsku sjónvarpsstöðina ARD seint í gærkvöldi.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hvatti ríki Evrópu til þess í gær að taka við evrópskum vígamönnum sem hafa verið handteknir í Sýrlandi að undanförnu.
Maas segir að þetta sé ekki mögulegt fyrr en það sé komið á hreint. Jafnframt sagði hann að stjórnvöld í Þýskalandi vilji skoða þetta í samstarfi við Frakka og Breta. Málið verður rætt á fundi evrópskra utanríkisráðherra í dag auk fleiri mála tengdum Sýrlandi.
Ríki íslams lýsti yfir sjálfskipuðu kalífadæmi í hluta Sýrlands og Íraks árið 2014 en hefur síðan misst yfirráð yfir öllum svæðum innan þess fyrir utan lítinn skika skammt frá landamærum Íraks.
Sýrlensku lýðræðisöflin (SDF) hafa árum saman barist við vígamenn Ríkis íslams og eru með hundruð útlendinga í haldi sem SDF sakar um að hafa tekið þátt í starfi Ríkis íslams. Eins eru fjölmargar konur og börn í þeirra haldi. Kúrdar í Sýrlandi hafa farið fram á það að ríkin sem fólkið kemur frá taki við þeim aftur en ríkin hafa verið treg í taumi.
Trump sagði á Twitter um helgina að Bandaríkin hafi óskað eftir því við Breta, Frakka, Þjóðverja og aðra bandamenn í Evrópu að þeir taki við yfir 800 vígamönnum Ríkis íslams sem hafa verið handteknir í Sýrlandi. Að þeir verði sóttir til saka í sínu heimalandi.
The United States is asking Britain, France, Germany and other European allies to take back over 800 ISIS fighters that we captured in Syria and put them on trial. The Caliphate is ready to fall. The alternative is not a good one in that we will be forced to release them........
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) February 17, 2019