Bandarískir mannréttinda- og þrýstihópar og lögregla deila áhyggjum um trúverðugleika fórnarlamba sem verða fyrir barðinu á hatursglæpum eftir að mál bandaríska leikarans Jussie Smollett komst í hámæli, en leikarinn sem er bæði samkynhneigður og svartur er sakaður um að hafa sviðsett hatursglæp gagnvart sér í miðborg Chicago í lok síðasta mánaðar.
Smollett er grunaður um að hafa stílað hatursbréf á sjálfan sig og í kjölfarið ráðið tvo karlmenn til að sviðsetja árás gagnvart sér sem m.a. innihélt rasísk og hómófóbísk ummæli ásamt því sem árásarmennirnir, eða leikararnir, hrópuðu að honum slagorð Donalds Trump Bandaríkjaforseta: „Make America Great Again“.
Lögreglan í Chicago sakar Smollet um að hafa notfært sér kynþáttalega- og pólitíska sundrungu í Bandaríkjunum til að öðlast frægð og skapa sér meiri tekjur. Hefur hann verið ákærður fyrir óspektir og fölsun í skýrslugjöf til lögreglu. Var hann látinn laus gegn 100 þúsund dala tryggingu.
Kami Chavis, saksóknari í tíð George W. Bush fv. Bandaríkjaforseta, sagði að ef fótur sé fyrir ásökununum gegn Smollett sé hann sekur um mikla óvirðingu gagnvart raunverulegum fórnarlömbum hatursglæpa.
Lögmenn leikarans hafa gagnrýnt lögreglu í Chicago og halda þeir fram sakleysi umbjóðanda síns. Segja þeir að um skipulagða sýningu sé að ræða af hálfu löggæsluyfirvalda.