Yfirvöld í New York hafa upprætt starfsemi þar sem hátt í 80 þúsund ferðamönnum hafa verið leigðar 130 íbúðir með ólögmætum hætti í gegnum vefsíðuna Airbnb frá árinu 2015, en talið er að þeir grunuðu í málinu hafi grætt allt að 20 milljónir dollara, tæplega 2,4 milljarða íslenskra króna, á starfseminni.
Greint er frá málinu á New York Times, þar sem segir að borgin sé stærsti markaðurinn fyrir Airbnb í Bandaríkjunum.
Ólögmæta starfsemin snerist um að komast hjá reglugerð New York-borgar um gististarfsemi, en þar er meðal annars kveðið á um að bannað sé að leggja heilu íbúðabyggingarnar undir slíka starfsemi.
Samkvæmt viðtölum og gögnum sem NYT hefur undir höndum notuðu stjórnendur starfseminnar fjölda mismunandi aðganga til þess að sneiða hjá reglum Airbnb. Þá voru heimilisföng íbúðanna sem auglýstar voru til leigu alltaf höfð óljós svo ekki kæmist upp að heilu íbúðarhúsin hefðu verið notuð undir starfsemina.
Alls voru um 100 mismunandi Airbnb-aðgangar og 18 mismunandi fyrirtæki stofnuð til þess að reka starfsemina, sem hafði til umráða íbúðir í öllum vinsælustu hverfum borgarinnar. Airbnb hefur fordæmt misnotkun á vettvangi þeirra og New York-borg hefur hafið lögsókn á hendur að minnsta kosti þremur stjórnendum starfseminnar. Borgin fer fram á 20 milljónir dollara.
Í umfjöllun sinni tekur NYT tali Max Beckman, en allt hófst þetta þegar hann átti erfitt með að ná endum saman sem fasteignasali og hóf að leigja út herbergi í íbúðinni sinni. Umfjöllunina í heild sinni má lesa á vef New York Times.