Óhugnanleg brúða, Momo að nafni, hefur vakið skelfingu barna og áhyggjufullra foreldra á Bretlandi upp á síðkastið. Brúðan birtist innan um myndefni á YouTube sem ætlað er börnum og hvetur áhorfendur til skaðlegrar hegðunar, líkt og að svipta sig lífi og taka inn pillur.
Lögreglan á Norður-Írlandi hefur sent frá sér tilkynningu vegna málsins og segir það ekki fara á milli mála að hakkarar beri ábyrgð á Momo og tilgangur brúðunnar sé að afla upplýsinga um notendur.
Momo hefur birst á ýmsum samfélagsmiðlum, til dæmis WhatsApp, þar sem hún hvetur unga notendur til að bæta sér á vinalistann. Ef Momo er samþykkt birtast börnunum ofbeldisfullar myndir og skaðlegar áskoranir.
Brúðan er til í nokkrum útgáfum og segir lögreglan hafa heyrt af sambærilegu atviki í Bandaríkjunum. „Þar heyrist uggvænleg rödd sem segir barninu að taka hníf og skera sig á háls,“ segir lögreglufulltrúi í samtali við BBC. Í öðru myndskeiði segir brúðan að ef barnið ljúki ekki við áskorunina sem því hefur verið sett muni eitthvað slæmt henda fjölskyldu þess.
Lögreglan brýnir fyrir foreldrum að hafa eftirlit með því sem börn þeirra skoða á netinu og að Momo sé enn eitt dæmið um þær hættur sem leynast á netinu.