Sveigði til og tók dýfur

Brak úr vél Ethiopian Airlines sem hrapaði um 60 kílómetrum …
Brak úr vél Ethiopian Airlines sem hrapaði um 60 kílómetrum suðaustur af Addis Ababa. AFP

Flugvél Ethiopian Airlines sveigði til og frá og tók dýfur áður en hún hrapaði í gær skammt frá höfuðborg Eþíópíu, Addis Ababa. Þetta segir sjónarvottur í samtali við CNN. Athygli hefur verið vakin á því að aðstoðarflugstjóri vélarinnar var mjög reynslulítill.

„Ég var uppi í fjalli í nágrenninu þegar ég sá flugvélina koma og beygja svo með mikinn strók aftan úr sér,“ segir Gebeyehu Fikadu við CNN. Hann hafi svo séð hana hrapa. „Hún hrapaði með miklum hvelli. Er hún hrapaði flaug farangur brennandi um. Áður en vélin hrapaði þá sveigði hún til hliðanna og tók dýfur og mikinn reyk lagði aftan úr henni. Einnig heyrðist hátt, óþægilegt hljóð áður en hún skall til jarðar.“

Aðrir sjónarvottar segjast einnig hafa heyrt undarlegt hljóð áður en vélin hrapaði. Þá segja þeir að vélin hafi hækkað flugið skömmu áður en hún svo tók stefnuna á jörðina þar sem hún tættist í sundur. Þetta er í samræmi við gögn sem sjá má af flugi vélarinnar á vefsíðunni FlightRadar24.

Samkvæmt upplýsingum frá Ethiopian Airlines hét flugstjóri vélarinnar Yared Getachew. Hann átti að baki 8.000 klukkustundir í háloftunum. Flugmálasérfræðingar hafa hins vegar vakið athygli á lítilli reynslu aðstoðarflugstjórans, Ahmed Nur Mohammod Nur, sem hafði litla flugreynslu, aðeins um 200 klukkustundir.

Peter Marosszeky, verkfræðingur og fyrrverandi stjórnandi hjá  Qantas Airways, Pan Am og American Airlines, segir að flugmenn stórra farþegaþota ættu að hafa mörg þúsund klukkustunda flugreynslu. Marosszeky hefur verið ráðgjafi Boeing í gegnum tíðina en vélin sem hrapaði var frá þeim flugvélaframleiðanda.

„200 tímar eru augljóslega fáránlega lítið,“ segir Marosszeky en bendir þó á að fyrir hafi komið að mjög reynslumiklir flugmenn, hafi flogið vélum sem hafa hrapað.

Vél Ethiopian Airlines hafði verið í sex mínútur í loftinu er hún hrapaði. Hún var á leið frá Eþíópíu til nágrannalandsins Kenía. Allir sem voru um borð, 157 talsins, létust.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert