Afdrif Boeing 737 MAX 8-þotu Ethiopian Airlines sem hrapaði á sunnudag hafa valdið miklu fjaðrafoki um allan heim og kemst fátt annað að í fréttum dagsins en lönd og flugfélög sem hafa kyrrsett þotur af þessari sömu gerð.
Donald Trump Bandaríkjaforseti lætur sínar hugleiðingar um málið að sjálfsögðu ekki eftir liggja og heldur því fram á Twitter að nútímaflugvélar séu orðnar of flóknar.
„Það er ekki lengur þörf á flugstjórum, heldur tölvunarfræðingum frá MIT,“ ritar forsetinn og vísar þar til eins virtasta tækniháskóla heims, Massachusetts Institute of Technology.
Segist Trump sjá mörg dæmi um þetta í mismunandi vörum. Alltaf sé leitast við að fara skrefinu lengra að óþörfu, þegar eldri og einfaldari leiðir séu raunar miklu betri. Oftar en ekki sé þörf á ákvarðanatöku á sekúndubroti og að flækjustigið skapi hættu.
„Ég veit ekki með ykkur, en ég vil ekki að Albert Einstein sé flugstjórinn minn. Ég vil góða atvinnuflugmenn sem hafa leyfi til þess að taka stjórn á flugvélum með einföldum og skjótum hætti!“
Airplanes are becoming far too complex to fly. Pilots are no longer needed, but rather computer scientists from MIT. I see it all the time in many products. Always seeking to go one unnecessary step further, when often old and simpler is far better. Split second decisions are....
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) 12 March 2019
....needed, and the complexity creates danger. All of this for great cost yet very little gain. I don’t know about you, but I don’t want Albert Einstein to be my pilot. I want great flying professionals that are allowed to easily and quickly take control of a plane!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) 12 March 2019