Kenndi múslimum um árásina og var eggjaður

Ástralski öldungadeildarþingmaðurinn Fraser Anning.
Ástralski öldungadeildarþingmaðurinn Fraser Anning.

Eftur hryðjuverkaárásirnar í Nýja Sjálandi í gær steig ástralski öldungadeildarþingmaðurinn Fraser Anning fram og kenndi múslimum og innflytjendastefnu Nýja Sjálands um ódæðið. Þetta gerði hann þrátt fyrir að það væru múslimar sem væru fórnarlömb árásarinnar og gerandinn ástralskur öfgamaður sem lýsti sjálfum sér sem hvítum karlmanni úr verkamannafjölskyldu sem hafi viljað ráðast gegn múslimum.

Viðbrögð við yfirlýsingu Anning hafa ekki staðið á sér og hafa stjórnmálaleiðtogar í Ástralíu sagt ummæli hans „ógeðsleg“ og að Anning væri öldungadeildinni til skammar. Þá var eggi kastað í Anning á fréttamannafundi í dag eftir að hann hafði viðrað þessa skoðun sína.

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, sagði að skoðanir Anning ættu ekki heima í Ástralíu, hvað þá á þinginu og að ummæli hans væru ógeðsleg. Malcolm Turnbull, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði Anning vera skömm fyrir þingið og að hann væri að spúa hatri og snúa Áströlum gegn hverjum öðrum. „Hann er að gera nákvæmlega það sem hryðjuverkamennirnir vilja,“ sagði Turnbull.

Tony Burk, þingflokksformaður ástralska Verkamannaflokksins, sagði ummæli Anning vera ígildi hatursræðu og að þau væru óhugnaleg og sjúk.

Anning gaf út yfirlýsingu í gær sem var meðal annars birt á Twitter, en þar byrjar hann á því að fordæma alla tegund ofbeldis og að hann fordæmi gjörðir árásarmannsins. Eftir þetta breytir hann hins vegar um stefnu og segir: „Hins vegar, þótt aldrei sé hægt að réttlæta þessa ofbeldishegðun þeirra sem taka lögin í eigin hendur, þá sýnir þetta aukin ótta í samfélagi okkar, bæði í Ástralíu og á Nýja Sjálandi, við aukinn fjölda múslima í löndunum.“

Sagði hann jafnframt að reynt yrði að tengja ástæður árásanna við „lygarnar“ um skotvopnalöggjöf og skoðanir þjóðernissinna. Hins vegar væri allt slíkt tal þvættingur. „Raunverulega ástæða blóðsúthellinganna á götum Nýja Sjálands í dag er innflytjendastefna sem leyfir múslimum að koma til Nýja Sjálands,“ segir Anning í yfirlýsingunni.

Tekur hann fram að þótt múslimar hafi verið fórnarlömbin í dag, þá hafi múslimar drepið fólk um allan heim í nafni trúarinnar og að Íslam séu trúarbrögð ofbeldis.

Ástralski öldungadeildarþingmaðurinn Fraser Anning hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir ummæli …
Ástralski öldungadeildarþingmaðurinn Fraser Anning hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir ummæli sín um ástæður árásarinnar. AFP

Innanríkisráðherra Bretlands, Sajid Javid, sagði ummæli Anning ýta undir loga ofbeldis og öfga og að Ástralir myndu skammast sín fyrir ummæli þingmannsins.

Anning hélt fréttamannafund í dag, en þar var meðal annars ungur maður sem tók upp ræðu Annings áður en hann skellti eggi í höfuð þingmannsins. Anning sneri sér við eftir eggjakastið og kýldi unga manninn í höfuðið. Eftir það var maðurinn tekinn niður af öðru fólki á fundinum áður en hann var færður í burtu af lögreglu.  



49 lét­ust og tveir eru í lífs­hættu í árásinni, en byssumaðurinn hefur verið nafngreindur sem Brenton Tarrant, 28 ára gamall Ástrali. Hann birti „stefnu­yf­ir­lýs­ingu“ í anda And­ers Ber­hring Brei­vik á Twitter-síðu sinni, festi mynda­vél á höfuð sér og sendi árás­ina út í beinni á Face­book.

Hann var í dag að áströlskum tíma leiddur fyrir dómara og ákærður fyrir morð eftir hryðjuverkaárás. Tarr­ant er fyrr­ver­andi lík­ams­rækt­arþjálf­ari og yf­ir­lýst­ur fas­isti en hann sat sviðbrigðalaus þegar dóm­ar­inn las ákær­urn­ar gegn hon­um.

Hann fór ekki fram á lausn gegn trygg­ingu og var færður í varðhald. Hann verður þar þangað til hann kem­ur aft­ur fyr­ir dóm­ara 5. apríl. Auk hans kom fram í færslu lög­regl­unn­ar á Nýja-Sjálandi á Twitter að tveir til viðbót­ar eru í varðhaldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert