Hópar Palestínumanna hafa undanfarna daga streymt út á götur Gaza-borgar og mótmælt efnahagsaðstæðum sínum undir stjórn Hamas-samtakanna, sem hafa verið við völd á Gaza frá því árið 2007.
BBC fjallar um málið og greinir frá því að síðan á fimmtudaginn í síðustu viku hafi hundruð mótmælt á alls níu stöðum á Gaza og einnig frá því að mótmælin hafi verið barin niður af hörku af öryggissveitum Hamas. Al-Jazeera fjallar einnig um málið og greinir frá árásum Hamas-liða á friðsæla mótmælendur undanfarna daga.
Tugir manna hafa verið handteknir, þeirra á meðal aðgerðasinnar, blaðamenn og starfsmenn mannréttindasamtaka, samkvæmt frétt BBC. Nickolay Mladenov, sem starfar fyrir Sameinuðu þjóðirnar og hefur aðkomu að friðarferlinu fyrir botni Miðjarðarhafs, segist fordæma ofbeldi Hamas gegn mótmælendum.
Amnesty International hefur einnig fordæmt framgöngu Hamas, eftir að rannsakandi á vegum mannúðarsamtakanna var handtekinn. Saleh Higazi, sem er næstráðandi í Mið-Austurlanda- og Afríkudeild Amnesty, segir að skerðing tjáningarfrelsisins og notkun pyntinga á Gaza-ströndinni hafi nú náð nýjum hæðum.
„Síðustu daga höfum við séð sláandi mannréttindabrot framin af öryggissveitum Hamas gegn friðsælum mótmælendum, blaðamönnum og starfsmönnum mannréttindasamtaka,“ sagði Higazi í yfirlýsingu í gær, sem AFP vísar til.
Hamas-samtökin hafa sakað pólitíska andstæðinga sína í Fatah, sem eru við stjórn á svæðum palestínsku heimastjórnarinnar á Vesturbakkanum, um að standa að baki ólgunni á Gaza til þess að grafa undan Hamas.
AFP-fréttaveitan greindi frá því í gær að maður að nafni Ateb Abu Seif, sem er hátt settur innan Fatah og talsmaður flokksins á Gaza, hefði verið barinn illilega og að Fatah kenndi Hamas-liðum um verknaðinn.
Myndskeið frá mótmælunum hafa vakið nokkra athygli og farið víða, meðal annars eitt af konu sem lýsir yfir áhyggjum sínum af atvinnuleysi eiginmanns síns og fjögurra sona og ójöfnuði innan Gaza-strandarinnar. Þar eru yfir 70% allra ungmenna án atvinnu.
„Synir Hamas-leiðtoganna eiga hús og jeppa og bíla og geta gift sig á meðan venjulegt fólk á ekki neitt, ekki einu sinni brauðhleif,“ segir konan samkvæmt frétt BBC.
Eins og fréttamaður BBC lýsir má rekja efnahagsþrengingar íbúa á Gaza til hafnbannsins sem svæðið hefur sætt af hálfu Ísraelsmanna og Egypta og þeirra verulegu aðgangshindrana sem eru á flæði varnings inn til Gaza. Slíkar þrengingar voru auknar eftir að Hamas komst til valda á Gaza fyrir 12 árum, þar sem Hamas eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök af Ísraelum, Bandaríkjamönnum, Evrópusambandinu og fleirum.
Undanfarin tvö ár hefur palestínska heimastjórnin svo beitt Hamas-stjórnina á Gaza fjárhagslegum þrýstingi, með það að markmiði að ná aftur völdum á svæðinu. Það hefur leitt til þess að Hamas-liðar hafa hækkað skatta, sem hefur á móti hækkað verð á nauðsynjavörum. Allt bitnar þetta á íbúum Gaza-strandarinnar, sem hafa mótmælt úti á götum undanfarna daga.
Aðgerðasinnar hafa gagnrýnt bæði Hamas og Fatah fyrir að ná ekki samstöðu um ágreiningsmál sín og hafa þessar tvær ráðandi fylkingar Palestínumanna verið sakaðar um að sýna daglegum þjáningum fólks lítið tillit.
Fréttin er byggð á umfjöllun BBC sem vísað er til og fregnum frá AFP-fréttaveitunni undanfarna daga.