Norska brugghúsið Lervig hefur sent frá sér tilkynningu á samfélagsmiðlum þar sem tilkynnt er að fyrirtækið muni loka á samskipti við alla aðila með norska IP-tölu, vegna laga þarlendis um áfengisauglýsingar sem að mati fyrirtækisins banna þeim að vera á samfélagsmiðlum.
„Þessi afgerandi ákvörðun er tekin vegna gríðarlega hárra sekta sem norsk stjórnvöld hafa lagt til sem myndu hafa mjög skaðleg áhrif á reksturinn ef af þeim verður,“ segir fyrirtækið á Facebook-síðu sinni.
Fyrirtækið segist ekki geta haldið áfram að vera alþjóðlegt vörumerki án viðveru á samfélagsmiðlum og til þess að fyrirtækinu verði kleift að vera það telur það sig knúið til þess að loka á norskar IP-tölur þannig að efni Lervig verði ekki aðgengilegt Norðmönnum.
„Þetta skaðar okkur og við teljum löggjöfina eiga við aðra tíma. Við hörmum að fólkið sem mun finna fyrir þessu er það sem er á okkar frábæra heimamarkaði – Noregi,“ segir brugghúsið.
Í Noregi er bann við allri markaðssetningu áfengis á samskiptamiðlum og eru meðal annars tilgreindir miðlarnir Facebook, YouTube, Twitter, SnapChat og Instagram á heimasíðu norska landlæknisembættisins (Helsedirektoratet).
Bannið nær til hvers konar auglýsingar áfengisdrykkja og vöru með sama vörumerki eða einkenni áfengisdrykkja. Einnig tekur bannið til markaðssetningar þar sem áfengur drykkur kemur fyrir við auglýsingu annarrar vöru eða þjónustu.