Byggði feril sinn á fölsuðum prófskírteinum

150 manns fórust þegar farþegaþota Germanwings, dótturfélags þýska flugfélagsins Lufthansa, …
150 manns fórust þegar farþegaþota Germanwings, dótturfélags þýska flugfélagsins Lufthansa, hrapaði í Ölpunum í Suður-Frakklandi. Peter B. kom að rannsókn á fórnarlömbum slyssins. AFP

Karlmaður nokkur á nú yfir höfði sér allt að fjögurra ára fangelsisdóm í hollensku fangelsi fyrir að ljúga til um menntun sína og skapa sér þannig feril sem réttarmeinafræðingur. Maðurinn, sem hollenskir fjölmiðlar nefna Peter B., starfaði árum saman sem réttarmeinafræðingur og kom m.a. að rannsókn á flugslysi farþegaþotu Germanwings árið 2015 þar sem allir 150 sem um borð voru létust.

Maðurinn, sem er 58 ára og var með viðurnefnið doktor Beini, vann fyrir sérfræðifyrirtæki, hollensk heilbrigðisyfirvöld og lögregluna. Upp komst hins vegar um að hann væri ekki meinafræðingur árið 2016, er hann gat ekki mælt blóðþrýsting rétt.

Saksóknaraembættið hefur farið fram á fjögurra ára dóm og segir manninn í eigin fantasíuheimi, en hollenskir fjölmiðlar hafa líkt honum við Frank Abgnale, svindlara sem var kveikjan að myndinni Catch Me If You Can.

Lögfræðingar mannsins segja farið fram á of þunga refsingu yfir honum, þar sem svik hans hafi ekki valdið neinum skaða. Sjálfur kveðst hann ekki vita hvað hafi fengið sig til að falsa prófskírteini.

Kenyon International, fyrirtækið sem kom að rannsókn á fórnarlömbum flugsslyssins, segir Peter B. ekki hafa starfað á vettvangi flugslyssins, né heldur hafi hann komið að því að bera kennsl á fórnarlömbin.

Peter B. var um tíma formaður samtaka réttarmeinafræðinga í Hollandi og segja forsvarsmenn samtakanna að eftir á að hyggja hafi það ekki verið gáfulegt. „Málið er að hann hafði raunverulega þekkingu á læknisfræði og gat rætt um flókna sjúkdóma án nokkurra vandkvæða,“ segir talsmaður samtakanna í samtali við Guardian. „Við hefðum samt átt að vera skarpari.“

Peter B. hafði hlotið þjálfun sem aðstoðarmaður við krufningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert