Sett verður sérstakt viðvörunarljós í allar flugvélar Boeing af tegundinni 737 MAX-8 sem mun blikka ef bilun kemur upp í svokölluðu MCAS-kerfi vélanna sem er ætlað að hindra að flugvélar ofrísi á flugi.
AFP-fréttastofan hefur þetta eftir heimildarmanni sínum.
Hingað til hafa flugfélög getað valið um hvort þau hafi þennan búnað í vélum sínum.
Notkun viðvörunarljóssins er hluti af þeim breytingum sem fyrirtækið ætlar að kynna fyrir bandarískum stjórnvöldum og viðskiptavinum sínum á næstu dögum, að sögn heimildarmannsins.
Viðvörunarljósið var hvorki að finna í flugvél Lion Air sem brotlenti í Indónesíu né í flugvél Ethiopian Airlines. Alls fórust 346 manneskjur með vélunum tveimur.
Rannsókn á flugritum beggja flugvélanna hefur leitt í ljós, að MCAS-kerfið hagaði sér með sambærilegum hætti í báðum slysunum.