Flugmenn þotu flugfélagsins Lion Air sem hrapaði í Indónesíu í október í fyrra höfðu líklega aðeins 40 sekúndur til að bregðast við bilun í kerfi vélarinnar. Þetta kom í ljós í flughermi þegar reynt var að líkja eftir þeim aðstæðum sem voru þegar slysið átti sér stað. The New York Times greinir frá.
189 fórust í slysinu og hefur það verið rakið til þess að sjálfvirkni í stjórnklefanum, svokallað MCAS-kerfi, sem átti að auka á öryggi flugvélar og farþega, hafi snúist upp í andhverfu sína. Allt virðist sem öryggisbúnaðurinn hafi ruglað flugmennina í ríminu og þannig átt sinn þátt í slysinu.
Þegar reynt var að líkja eftir því sem gerðist í slysinu í flugherminum var skynjari meðal annars látinn bila sem varð til þess að MCAS-kerfið fór í gang. New York Times hefur eftir heimildarmönnum að flugmennirnir hafi aðeins haft 40 sekúndur til að átta sig á vandanum, aftengja kerfið og koma í veg fyrir að nef vélarinnar leitaði niður.
Önnur flugvél sömu gerðar í eigu Etiopian Airlines hrapaði í þessum mánuði í Kenýa, en 157 manns létust í því slysi. Í framhaldinu hafa allar vélar þessarar gerðar verið kyrrsettar meðan rannsókn stendur yfir, en bilun í fyrrnefndu MCAS-kerfi hefur verið tengd við bæði slysin.
Bráðabirgðaskýrsla um flugslys vélar Ethiopian Airlines verður að öllum líkindum birt í þessari viku. Á sama tíma vinnur Boeing nú hörðum höndum að uppfærslu á hugbúnaði vélanna og þjálfunarleiðbeiningum.