Boeing 737 MAX-þota flugfélagsins Southwest Airlines þurfti að nauðlenda í kvöld eftir að hafa átt í erfiðleikum vegna vélarbilunar á leið sinni frá Flórída til Kaliforníu.
Vélin sneri við og lenti á heilu og höldnu aftur í Orlando, að því er fram kemur í tilkynningu frá bandarísku flugmálastofnuninni. Engir farþegar voru um borð í vélinni en flugfélagið tók þá ákvörðun á laugardag að flytja nokkrar farþegaþotur af gerðinni Boeing 737 MAX 8 úr flota sínum í langtímageymslu í Mojave-eyðimörkinni í Victorville í suðurhluta Kaliforníu.
Atvikið er til rannsóknar innan flugmálastofnunarinnar. Boeing vinnur nú hörðum höndum að uppfærslu á hugbúnaði vélanna og þjálfunarleiðbeiningum eftir að tvær þotur af þessari gerð steyptust til jarðar og fórust með 346 manns innanborðs. Í fyrra slysinu, í október, fórst þota Lion Air í Indónesíu með 189 manns um borð og fyrr í þessum mánuði fórst 737-þota Ethiopian Airlines með 157 manns í Eþíópíu.