Bráðabirgðaniðurstaða rannsóknar á hrapi farþegaþotu Ethiopian Airlines bendir til þess að sjálfvirki MCAS-öryggisbúnaður vélarinnar, sem var af gerðinni Boeing 737 Max 8, hafi virkjast áður en vélin hrapaði.
Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal greinir frá þessu og hefur eftir ónefndum heimildamanni að þessar niðurstöður hafi verið kynntar fyrir bandaríska loftferðaeftirlitinu (FAA) í gær.
BBC segir niðurstöður rannsóknar á flugritum vélar Ethiopian Airlines kunna að leiða til fyrstu málshöfðunar vegna flugslyssins. Þannig höfðaði fjölskylda Rúandabúans Jackson Musoni, í gær mál gegn Boeing fyrir dómstól í Chicago. Er því haldið fram í málsskjölum að galli hafi verið í MCAS-búnaðinum.
MCAS (Maneuvering Characteristics Augmentation System) er sjálfvirkur öryggisbúnaður sem vakir í bakgrunni stjórnkerfis 737 MAX 8-flugvélarinnar og var hannaður til að koma í veg fyrir að vængirnir missi lyftikraft á flugi og ofrísi.
Þessi búnaður var bæði í þotu Ethiopian Airlines og eins farþegaþotu indónesíska Lion Air-flugfélagsins sem hrapaði úti fyrir ströndum Jövu í október í fyrra, en alls fórust 346 manns í þessum tveimur flugslysum. Brottflug beggja flugvéla var reikult og óviðráðanlegt, þar sem á skiptust bratt klifur og brattar dýfur með flöktandi flughraða áður en þær skullu til jarðar skömmu eftir flugtak.
Wall Street Journal segir frekari rannsóknir nú í gangi á því sem fram kemur á flugritunum, en búist sé við bráðabirgðaskýrslu frá Ethiopian Airlines um slysið á næstu dögum.
Boeing kynnti fyrr í vikunni uppfærslu á MCAS-öryggisbúnaðinum og verður þar komið fyrir sérstöku viðvörunarkerfi, sem áður þurfti að panta sérstaklega. Boeing sagði hins vegar á fundi með fréttamönnum að uppfærslan þýddi þó ekki viðurkenningu á að búnaðurinn hefði valdið árekstrinum.