Miðað við skoðanakannanir nýtur grínistinn Volodimír Selenskí, sem hefur enga reynslu sem stjórnmálamaður aðra en þá að leika forseta Úkraínu, mest fylgis í fyrri umferð forsetakosninganna í landinu sem fram fara í dag.
Fram kemur í frétt AFP að hinn 41 árs gamli Selenskí hafi ekki verið talinn eiga mikla möguleika í kosningunum í fyrstu. Kjósendur séu hins vegar orðnir langþreyttir á spillingu á meðal stjórnmálamanna og slæmu efnahagsástandi.
Selenskí er aðalleikarinn í grínþáttunum „Þjónn fólksins“ sem njóta mikilla vinsælda í Úkraínu. Hann hefur mælst með 25% fylgi á meðan sitjandi forseti, Petró Porosjenkó, mælist með í kringum 17% ásamt Júlíu Tímósjenkó, fyrrverandi forsætisráðherra.