Vilja tryggja yfirráð yfir norðurskautinu

Á kuldasvæðum síberískra eyja er nýtt vígbúnaðarkapphlaup að hefjast, segir CNN sjónvarpsstöðin í umfjöllun sinni um eina af nýjustu herstöðvum Rússa á Kotelny-eyju. Í landslagi sem sé með því hrjóstrugasta sem gerist á jörðinni sé að finna smáralaga byggingu í rússnesku fánalitunum sem hýsi 250 hermenn og geymi nægar birgðir svo þeir sem þar dvelji geti lifað og starfað án utanaðkomandi afskipta í rúmt ár.

Kotelny-herstöðin, sem er staðsett í snæviþöktu landslagi norðurheimskautsins, er landfræðilega nær Alaska en Moskvu. Segir CNN hana vera eina af þremur nýju herstöðvum Rússa sem Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi látið reisa ofar 75 breiddargráðu með það í huga að auka herstyrk Rússa við hina víðfeðmu strandlengju norðurheimskautsins.

Rússneski herinn fullyrðir raunar að hann hafi reist 475 hernaðarstarfsstöðvar undanfarin sex ár á svæðinu frá landamærum Rússlands í vestri að Beringssundi í austri.

Kapphlaupið um norðurheimskautið að herðast

Norðurskipafloti rússneska hersins flutti inn í herstöðina á Kotelny-eyju árið 2016, en frostið þar getur farið niður í 50 gráður. Þar sem tengingar eru á milli íbúahúsa og vinnuhluta þarf starfsfólk þó ekki að fara út í frostið nema það sé á vakt.

„Herstöðin okkar er með ratsjáreftirlit, fylgist með flugumferð, tryggir siglingaleiðina um Norðursjó og metur skemmdir á umhverfinu,“ hefur CNN eftir Vladimir Pasechnik, yfirliðþjálfa í herstöðinni.

Eldflaugavarnarkerfi er þegar til staðar í herstöðinni og segir CNN rússnesk stjórnvöld vera vel meðvituð um aukið mikilvægi siglingaleiðarinnar um norðurheimskaut og ætla að tryggja sér yfirráð þar. 50% strandlengju norðurheimskautsins eru á yfirráðasvæði Rússa, sem hafa lagt fram kröfu hjá Sameinuðu þjóðunum um yfirráð yfir 1,2 milljón ferkílómetrum til viðbótar af norðurheimskautssvæðinu.

Segir CNN kapphlaupið um norðurheimskautið vera að herðast, en búist er við að miklar olíu- og gasauðlindir á svæðinu verði aðgengilegri er ísinn á svæðinu bráðnar í kjölfar hlýnunar jarðar.

Hefur Pútín sjálfur lýst norðurheimsskautssvæðinu sem „mikilvægasta svæðinu sem mun halda uppi Rússlandi framtíðarinnar“ og var raunar sérstakt ráðuneyti sett á laggirnar sem sér um þróun á Norðurheimsskauti og austasta hluta landsins. Þá hefur forsetinn fyrirskipað að skipaumferð um norðurheimskautaleiðina verði aukin tífalt fyrir árið 2024.

Tilkynni siglingar með 45 daga fyrirvara

Rússnesk stjórnvöld eru líka að herða stjórn sína á svæðinu, sem styttir siglingaleiðinni milli Evrópu og Asíu um 40%. Tilkynntu Rússar fyrr í mánuðinum að erlendum skipum verði hér eftir gert að tilkynna með 45 daga fyrirvara ætli þau að sigla þessa leið. Þá verði þau einnig að fá rússneskan leiðsögumann um borð og greiða aukin kostnað fyrir að fá að sigla þar um.

CNN segir bandarísk stjórnvöld nú vera farin að veita málefnum norðurskautsins meiri athygli. „Ég held að við séum loksins farin að fylgjast með,“ segir David W. Titley aðmíráll í bandaríska sjóhernum við sjónvarpsstöðina. „Við höfum hunsað [norðurheimskautið] síðastliðin tvo ár, en keppinautar okkar eru með alvöruáætlanir og fjármagnið til að fylgja þeim eftir. Þannig að ég mynd segja nú er síðbúinn áhugi á málinu í Bandaríkjunum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert