Hátt í fimmtíu dýrum hefur verið bjargað úr slæmum aðstæðum í dýragarðinum Rafah Zoo á Gaza-ströndinni og þau flutt í athvarf í Jordan. Greint er frá því í frétt BBC að dýraverndarsamtökin Four Paws hafi staðið að flutningunum.
Rafah-dýragarðurinn opnaði nærri landamærunum við Egyptaland árið 1999 og var athygli samtakanna vakin á slæmum aðbúnaði dýranna fyrr á árinu þegar fregnir bárust af því að klær ljónynju hefðu verið klipptar með garðklippum svo gestir gætu leikið við hana.
#SaveGazaAnimals: YES! The cages are empty!
— FOUR PAWS (@fourpawsint) 7 April 2019
We have achieved the impossible and managed to get the 47 animals out of Rafah zoo. Now we are ready for the trip to their new home. Thanks to everyone who supported this mission. pic.twitter.com/u8jW5GTL0o
Eigandi dýragarðsins, Fathy Jomaa, hafði lengi verið gagnrýndur fyrir slæman aðbúnað dýranna og í kjölfar þess að fjórir ljónsungar dóu í garðinum á árinu hafði Jomaa samband við Four Paws og bað um hjálp við að flytja dýrin annað.
Ljón, apar, páfuglar og puntsvín eru meðal þeirra 47 dýra sem bjargað var og voru þau deyfð meðan á 300 kílómetra löngu ferðalaginu í gegnum Ísrael stóð, en ísraelsk stjórnvöld höfðu veitt leyfi fyrir flutningunum.
Talsmaður Four Paws segir að búrin hafi verið orðin allt of lítil fyrir öll dýrin og voru fuglar einu dýrin sem urðu eftir í garðinum. Til stendur að flytja tvö ljónanna til Suður-Afríku.