Svíi með tengsl við WikiLeaks handtekinn

Maria Paula Romo, innanríkisráðherra Ekvador, greindi frá handtöku hins sænska …
Maria Paula Romo, innanríkisráðherra Ekvador, greindi frá handtöku hins sænska Ola Bini. AFP

Sænskur karlmaður með náin tengsl við Julian Assange, stofnanda uppljóstrunarsíðunnar WikiLeaks, var handtekinn í Ekvador síðdegis í gær er hann var á leið úr landi. Assange sjálfur var handtekinn í sendiráði Ekvador í London um morguninn, en þar hafði hann notið pólitísks hælis frá 2012. BBC greinir frá.

Það var innanríkisráðuneyti Ekvador sem greindi frá handtöku Svíans, sem AP-fréttaveitan segir heita Ola Bini og vera hugbúnaðarsérfræðing.

„Einstaklingur tengdur WikiLeaks, sem hefur verið búsettur í Ekvador, var handtekinn síðdegis þegar hann var að búa sig undir að fara til Japan,“ hefur spænska útgáfa CNN eftir Maríu Paula Romo, innanríkisráðherra landsins.

Maðurinn, sem hefur búið í Ekvador um nokkurra ára skeið, ferðaðist reglulega til London og heimsótti þá Assange í sendiráðinu að sögn Romo. „Hann er í haldi vegna rannsóknarhagsmuna,“ bætti hún við.

Julian Assange sést hér inni í lögreglubíl á leið í …
Julian Assange sést hér inni í lögreglubíl á leið í dómssal. AFP

AP hefur eftir embættismanni innan stjórnsýslu Ekvador, sem ekki vildi láta nafn síns getið, að Bini hefði verið handtekinn á Quito-flugvellinum í höfuðborginni.

„Það veldur mér miklum áhyggjum að heyra að hann hafi verið handtekinn,“ sagði Martin Fowler bandarískur forritari á Twitter og sagði Bini vera „málsvara og stuðningsmann friðhelgi einkalífs“.

Fyrr í gærdag greindi Romo frá því á fundi með fréttamönnum að einstaklingur með náin tengsl við WikiLeaks væri búsettur í Ekvador og svaraði Bini því þá til á Twitter að orð hennar sýndu að „nornaveiðar“ væru í undirbúningi.

Assange situr nú í varðhaldi í Bretlandi, en bandarísk yfirvöld hafa farið fram á að fá hann framseldan vegna ákæru þar í landi og segir bandaríska dómsmálaráðuneytið hann vera samsekan uppljóstraranum og fyrrverandi leyniþjónustustarfsmanninum Chelsea Manning um þjófnað á gögnum úr tölvum hins opinbera.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert