Tveir valinkunnir karlar þurfa að bera vitni

Hassanal Bolkiah, soldán Brúnei.
Hassanal Bolkiah, soldán Brúnei. AFP

Utanríkisráðuneytið í Brúnei segir að innleiðing sjaría-laga eigi að þjóna fyrirbyggjandi hlutverki frekar en að hvetja til refsinga. Stjórnvöld í landinu eru harðlega gagnrýnd um allan heim fyrir að taka upp hin ströngu íslömsku lög þar sem dauðarefsing, grýting til bana, er lögð við framhjáhaldi og kynlífi samkynhneigðra karlmanna. 

Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins verður farið fram á afgerandi sönnun fyrir brotum í þessum tilvikum og er gefið í skyn að slíkar refsingar verði fágætar. Sameinuðu þjóðirnar hafa sagt refsingarnar „grimmilegar og ómannúðlegar“. 

Utanríkisráðherra Brúnei brást við gagnrýni Sameinuðu þjóðanna með því að senda stofnuninni bréf þar sem m.a. segir að sjaría-lög eigi fremur að vera fyrirbyggandi en nokkuð annað. „Markmið þeirra er að fræða, hindra, endurmennta og næra frekar en að refsa.“

Til verndar konum

Í yfirlýsingu ráðherrans segir ennfremur að lögin skilgreini ekki glæpi út á kynhneigð eða trúarbrögðum. Að gera framhjáhald og samkynhneigð refsiverða sé gert til að „vernda heilagleika fjölskyldna og hjónabönd milli tveggja múslima, sérstaklega kvenna“.

Ráðherrann segir í yfirlýsingu sinni, til útskýringar, að hámarksrefsing, aflimun og dauði, verði aðeins beitt í ákveðinni tegund glæpa og að minnsta kosti „tveir valinkunnir karlmenn“ þurfi að vitna í málunum.

Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, segist hafa rætt við kollega sinn í Brúnei um málið sem hafi gefið í skyn að ólíklegt væri að saksótt yrði fyrir brot á lögunum.

Frétt BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert