„Byrjið á að borga skattana ykkar“

Auðugustu menn Frakklands voru heldur betur ekki lengi að bregðast …
Auðugustu menn Frakklands voru heldur betur ekki lengi að bregðast við þegar að kirkjan sögufræga brann frammi fyrir augum heimsbyggðarinnar á mánudag. AFP

Rausn­ar­leg fram­lög franskra auðmanna til end­ur­bygg­ing­ar Notre Dame-dóm­kirkj­unn­ar í Par­ís hafa vakið mikla at­hygli, en sú at­hygli hef­ur ekki ein­ung­is verið já­kvæð. Í frétta­skýr­ingu New York Times kem­ur fram að verka­lýðsleiðtog­ar og stjórn­mála­menn hafi gagn­rýnt fram­lög­in, sem sögð eru sýna hversu mik­il mis­skipt­ing­in er í land­inu.

Auðug­ustu menn Frakk­lands voru held­ur bet­ur ekki lengi að bregðast við þegar að kirkj­an sögu­fræga brann frammi fyr­ir aug­um heims­byggðar­inn­ar á mánu­dag. Franco­is-Henri Pi­nault, næst rík­asti maður Frakk­lands, hét því að leggja 100 millj­ón­ir evra til end­ur­bygg­ing­ar­starfs­ins í þann mund sem slökkviliðsmenn voru að slökkva í síðustu glóðunum á þriðju­dags­morg­un.

Bern­ard Arnault, sem er allra Frakka rík­ast­ur, lét síðan ekki sitt eft­ir liggja og skutlaði 200 millj­ón evr­um í sjóðinn, ein­ung­is nokkr­um klukku­stund­um síðar, en þeir Pi­nault og Arnault hafa átt í hat­römm­um deil­um til margra ára.

Um­deild hug­mynd kveikti ofsa

Og fleiri hafa lagt sitt að mörk­um. Sam­kvæmt frétt New York Times höfðu yfir 850 millj­ón­ir evra safn­ast þegar í gær, frá frönsk­um fjöl­skyld­um og stór­fyr­ir­tækj­um inn­lend­um sem er­lend­um. En sem áður seg­ir, eru ekki all­ir sátt­ir með þessi fram­lög.

Francois-Henri Pinault (t.v.) og Bernard Arnault (t.h).
Franco­is-Henri Pi­nault (t.v.) og Bern­ard Arnault (t.h). AFP

Sér­stak­lega ekki eft­ir að Jean-Jacqu­es Ail­lagon, fyrr­ver­andi menn­ing­ar­málaráðherra lands­ins og nú­ver­andi ráðgjafi Franco­is Pi­nault eldri, föður Franco­is Henri Pi­nault, lagði til að fjár­fram­lög til end­ur­bygg­ing­ar­inn­ar yrðu gerð frá­drátt­ar­bær frá skatti upp að 90%, í stað 60% eins og al­mennt er með góðgerðafram­lög í Frakklandi.

Orð hans vöktu mikla reiði og viðbrögðin voru svo sterk að Ail­lagon dró orð sín til baka í út­varps­viðtali í gær­morg­un og Pi­nault fjöl­skyld­an gaf út yf­ir­lýs­ingu um að hún myndi ekki sækj­ast eft­ir skattafrá­drætti á móti fram­lagi sínu.

„Sýn­ir ber­lega ójöfnuðinn í þessu landi“ 

„Get­ur þú ímyndað þér, 100 millj­ón­ir, 200 millj­ón­ir með ein­um músars­melli,“ sagði Phil­ippe Mart­inez, formaður verka­lýðsfé­lags­ins CGT. „Þetta sýn­ir ber­lega ójöfnuðinn í þessu landi,“ sagði verka­lýðsleiðtog­inn og bætti því að fyrst auðjöfr­arn­ir ættu tugi millj­óna evra til þess að end­ur­byggja Notre Dame ættu þeir að hætta að segja fólki að pen­ing­ar væru ekki til til þess að mæta fé­lags­leg­um ójöfnuði.

Manon Aubry, sem er hátt sett í France Isoumise, rót­tæk­um vinstri­flokki, sagði fram­lög­in „æf­ingu í al­manna­tengsl­um.“ Hún sagði að list­inn yfir þá sem hefðu gefið til end­ur­bygg­ing­ar­inn­ar liti út eins og listi yfir fyr­ir­tæki og ein­stak­linga sem væru staðsett í skatta­skjól­um.

„Ég vil segja þeim: Byrjið á að borga skatt­ana ykk­ar,“ sagði Aubry og bætti við að þá væri hægt að auka fjár­veit­ing­ar rík­is­ins til menn­ing­ar­mála.

Æsir Gul­vestunga enn frek­ar

Emm­anu­el Macron Frakk­lands­for­seti hef­ur staðið í ströngu við að reyna að friðþægja Gul­vestunga, sem hófu hörð mót­mæli gegn hækk­un­um eldsneyt­is­skatta síðasta haust, sem hafa síðan þró­ast yfir í al­menn mót­mæli gegn versn­andi lífs­skil­yrðum meðal­tekju­fólks í Frakklandi, sem telja sig bera þunga skatt­byrði miðað við efri-millistétt og þá ríku.

Frá götumótmælum Gulvestunga í Toulouse 13. apríl sl.
Frá götu­mót­mæl­um Gul­vestunga í Tou­lou­se 13. apríl sl. AFP

Vegið hef­ur verið að Macron fyr­ir að af­nema sér­stak­an auðlegðarskatt, en það gerði rík­is­stjórn hans til þess að reyna að örva efna­hag rík­is­ins.

Fyr­ir Macron eru fram­lög­in til end­ur­bygg­ing­ar Notre Dame og umræða um aukna skatta­afslætti til handa millj­arðamær­ing­um þeirra vegna því orðin enn eitt málið, sem kveikt hef­ur bál í hjört­um þeirra, sem telja mis­skipt­ing­una mikla og ósann­gjarna.

Frétta­skýr­ing New York Times í heild sinni

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert