Grínistinn Volodimír Selenskij er næsti forseti Úkraínu, en samkvæmt útgönguspá hefur hann fengið yfir 70% atkvæða í forsetakosningunum.
Hann vann einnig stóran sigur í fyrri umferð kosninganna þegar 39 frambjóðendur börðust um embættið. Nú atti hann kappi við Petró Pórósjenkó, sem var kjörinn forseti Úkraínu árið 2014, að því er segir á vef BBC.
Forsetaembættið er valdamikið, m.a. hvað varðar öryggis- og varnarmál, sem og að hafa mikil áhrif á stefnu landsins í utanríkismálum.
Selenskij er þjóðkunnur eftir að hafa leikið forseta Úkraínu í sjónvarpsþáttunum Þjónn fólksins. Þættirnir fjalla um sagnfræðikennara sem er kjörinn forseti Úkraínu eftir að myndband af honum að kvarta yfir spillingu í úkraínska stjórnkerfinu fer á flug um netheimana. Framleiðendur þáttanna stofnuðu stjórnmálaflokk undir nafninu Þjónn fólksins árið 2018.
Spilling er víðtæk í úkraínskri stjórnsýslu og fámennur hópur olígarka hefur ráðið yfir ríkisstofnunum og auðlindum landsins frá sjálfstæði þess frá Sovétríkjunum. Stuðningsmenn Selenskij vona að sem forseti kunni hann að líkjast hinum hrekklausa og heiðarlega utangarðsmanni í pólitík sem hann leikur í þáttunum og að hann muni brjóta upp hið gerspillta kerfi sem hvorki tókst að brjóta upp með appelsínugulu byltingunni né byltingunni 2014.
„Þetta verður sigur Úkraínumanna í dag, sigur Úkraínu, og - ég vona - sigur sanngjarns vals,“ sagði Selenskij eftir að hafa greitt atkvæði í kosningunum í dag.
Verði hann réttkjörinn forseti þá mun hann gegna embættinu næstu fimm ár.
Samkvæmt útgönguspánni fékk Pórósjenkó um 25% atkvæðanna.
Uppfært kl. 18:00
Pórósjenkó hefur viðurkennt ósigur.