Sprengjuárásirnar orðnar átta

Frá kirkjunni St. Anthony's Shrine á Sri Lanka þar sem …
Frá kirkjunni St. Anthony's Shrine á Sri Lanka þar sem sprengja sprakk. AFP

Að minnsta kosti tveir til viðbótar eru látnir á Sri Lanka eftir að önnur sprengjuárás var gerð á hótel í höfuðborginni Kólombó núna í morgun.

Að sögn lögreglunnar var árásin gerð í úthverfinu Dehiwala í suðurhluta borgarinnar.

Alls eru sprengjuárásirnar á Sri Lanka orðnar átta talsins því önnur sprengja til viðbótar sprakk í úthverfinu Orugodawatta, norður af Kólombó, í morgun.

Lögreglan rannsakar ummerki á veitingastað á lúxushótelinu Shangri-La þar sem …
Lögreglan rannsakar ummerki á veitingastað á lúxushótelinu Shangri-La þar sem sprengja sprakk. AFP

Varnarmálaráðherra Sri Lanka hefur sett á útgöngubann í landinu vegna árásanna en yfir 150 manns hafa farist í þeim. Útgöngubannið stendur yfir frá klukkan 18 í kvöld að staðartíma, eða klukkan 12.30 að íslenskum tíma, og stendur yfir til klukkan 6 í fyrramálið að staðartíma.  

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hefur fordæmt sprengingarnar. „Það var bæði hryllilegt og sorglegt að heyra af sprengingunum á Sri Lanka þar sem svo margir hafa dáið,“ skrifaði hann á Twitter og bætti við að ESB muni rétta fram hjálparhönd.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sagði árásirnar hryllilegar. „Þessi ofbeldisverk gagnvart kirkjum og hótelum á Sri Lanka eru hryllilegar og ég votta innilega samúð mína með öllum þeim sem tengjast þeim á þessum erfiðu tímum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka