Einn af sjálfsvígsárásarmönnunum sem gerðu fjölda árása á hótel og kirkjur á Sri Lanka beið þolinmóður í biðröð á morgunverðarhlaðborði á hótelinu Cinnamon Grand áður en hann sprengdi sig upp með sprengiefninu sem hann hafði meðferðis á bakinu.
Maðurinn, sem hélt á morgunverðarbakka, hafði skráði sig kvöldið áður á hótelið undir nafninu Mohamed Azzam Mohamed. Rétt áður en hann átti að fá afgreiðslu setti hann sprengjuna af stað á veitingastaðnum, sem var troðfullur af fólki.
Framkvæmdastjóri á hótelinu sagði frá þessu í samtali við AFP-fréttastofuna. „Það var algjör ringulreið,“ sagði hann.
Hlaðborðið á veitingastað hótelsins, Taprobane, var eitt það fjölmennasta á árinu, enda páskahátíðin í gangi. „Klukkan var 8.30 fyrir hádegi og það var mikið að gera. Það voru fjölskyldur þarna,“ sagði framkvæmdastjórinn.
„Hann kom í biðröðina og setti sprengjuna af stað,“ bættti hann við. „Einn af framkvæmdastjórunum okkar sem var að taka á móti gestum var á meðal þeirra sem dóu strax.“
Um tuttugu til viðbótar voru fluttir á sjúkrahús.