Mæðgurnar Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir og Viktoría Kjartansdóttir flugu til Maldíveyja frá höfuðborg Sri Lanka, Kólombó, í gær, daginn fyrir átta mannskæðar sprengjuárásir sem beint hefur verið að kirkjum og hótelum í dag.
„Við vorum í Sri Lanka í rétt tæpa viku. Við fórum í smá ferðalag inn í miðlandið, Kandalama-frumskóginn, niður til Kandy, Nuwara Eliya og enduðum svo í Negombo þar sem við vorum í gær,“ segir Hanna í samtali við mbl.is.
67 létust í árás sem gerð var á kirkju í Negombo í morgun, en alls eru yfir 200 manns talin af.
„Bílstjórinn sem keyrði okkur upp á flugvöll í gær benti okkur einmitt mjög stoltur á þessa kirkju. Um morguninn höfðum við gengið þarna um göturnar og haft á orði hve áberandi væri að þetta væri kristinn bær. Við keyrðum í gegnum nokkur múslimsk þorp en alls staðar annars staðar er búddismi mest áberandi,“ útskýrir Hanna.
Svo virðist vera að sprengjuárásirnar hafi hvað helst beinst gegn kristnum og ferðamönnum. „Ég kom hingað með dóttur minni og taldi mig vera að velja öruggan stað til að koma til. Sri Lanka var valinn ferðamannastaður ársins 2019 af Lonely Planet og hvorug okkar upplifði sig óörugga á þessu ferðalagi,“ segir Hanna, en hún er blaðamaður og ritstjóri Gestgjafans og fjallar mikið um ferðalög. Hún segir augljóst að mikill uppgangur sé í ferðaþjónustu í Sri Lanka.
„Þetta er land andstæðna. Mikil náttúrufegurð og náttúran gefur mikið af sér, en hér er ofsalega mikil fátækt. Hér býr fólk í kofum og hreysum en svo eru hér fimm stjörnu hótel fyrir ferðamenn. Hótelið sem við gistum á er hluti af sömu hótelkeðju og nokkur hótelanna þar sem árásir voru gerðar.“
Hanna segist ferðast mikið en hryðjuverk sem þessi hafi aldrei verið framin svo nálægt henni.
„Við fundum það vel að þarna vorum við hluti af forréttindahópi. Bílstjórinn sem við vorum með fór alltaf með okkur á staði sem voru augljóslega fyrir ferðamenn og við þurfum að ýta á hann til að komast út úr því. Við tókum líka mikið af myndum og fundum að hann var ekki hrifinn af því að við værum að taka mikið af myndum af þessari fátækt sem blasti við.“
Hanna og Viktoría verða á Maldíveyjum í nokkra daga áður en þær halda heim til Íslands, en á leiðinni til baka þurfa þær að millilenda í Kólombó. „Það er ekkert sérstaklega góð tilfinning, en við fylgjumst með og ráðfærum okkur við ferðaskrifstofuna.“