Vissu af hættunni í 10 daga

Samkvæmt skýrslu stjórnvalda Sri Lanka var þeim gert viðvart um …
Samkvæmt skýrslu stjórnvalda Sri Lanka var þeim gert viðvart um yfirvofandi hættu 11. apríl. AFP

Skýrsla dagsett 11. apríl segir að erlend leyniþjónusta eigi að hafa varað yfirvöld á Sri Lanka við hættu á að hryðjuverkasamtökin National Thawheed Jamaut myndu ráðast á kirkjur í landinu. Ekki er vitað hvort stjórnvöld gerðu ráðstafanir vegna viðvörunarinnar, að því er fram kemur í umfjöllun Reuters.

Alþjóðlegir sérfræðingar segja að þrátt fyrir að samtökin séu frá Sri Lanka sé líklegt að al-Qaeda eða Ríki íslams tengist hryðjuverkunum í landinu sökum þess hve fáguð vinnubrögð voru við framkvæmd árásanna.

Í gær létust 290 og að minnsta kosti 500 særðust þegar sprengjutilræði voru framin í kirkjum og hótelum í Sri Lanka í gær. Þá hafa 24 verið handteknir.

Norska ríkisútvarpið NRK hefur eftir Øivind Fuglerud prófessor að þessi tilteknu samtök eigi rætur að rekja til fimmta áratugarins og að þau hafi verið stofnuð af einstaklingum sem sóttu trúarlega menntun til Sádi-Arabíu. Þá aðhyllist þau bókstafstrú á grundvelli wahabískrar trúarhefðar.

National Thawheed Jamaut er lítill jaðarhópur sem ekki hefur verið fyrirferðarmikill en hefur sótt í sig veðrið undanfarin ár. Aðgerðir hópsins hafa til þessa ekki verið mjög alvarlegar, en hann framdi skemmdarverk á styttum af Búdda í fyrra.

Þá kemur fram í umfjöllun Times of India að samtökin séu einnig virk í suðurhluta Indlands, Tamil Nadu.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert