Það var á þriðja tímanum í dag að norskum tíma sem göngugarpur á útivistarsvæðinu Estenstadmarka í Þrándheimi í Noregi gekk fram á tvö lík. Voru þar jarðneskar leifar karlmanns og konu, skrýddar útivistarfatnaði.
Lögreglan í Þrándheimi rannsakar nú málið. Segir Atle Lothe Pedersen, rannsóknarlögreglumaður sameinaðrar glæparannsóknardeildar Þrændalaga, við norska ríkisútvarpið NRK að ljóst sé að hin látnu hafi legið úti um nokkurt skeið, líklega einhverjar vikur.
Pedersen verst að öðru leyti allra frétta vegna yfirheyrslna sem hugsanlega muni eiga sér stað. Hann segist af þessum sökum ekki vilja ræða aldur fólksins, nema að hin látnu hafi augljóslega verið fullorðið fólk, og eins er hann þögull um hvers konar útivistarfatnaði þau voru klædd.
Enn liggur þó ekkert fyrir sem gefur til kynna að saknæmt athæfi hafi átt sér stað, en lögregla rannsakar andlát sem grunsamleg (n. mistenkelig) liggi augljós dánarorsök ekki fyrir. „Krufningin gefur okkur fleiri svör,“ segir Pedersen en sá eða sú sem tilkynnti um líkfundinn hefur sætt yfirheyrslu.