Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, hringdi í Anitu Hill fyrr í mánuðinum til að lýsa því yfir að hann sæi eftir því „sem hún mátti þola“ þegar hún bar vitni gegn Clarence Thomas árið 1991 en Hill sakaði Thomas um kynferðislega áreitni.
Hill segist ekki geta stutt Biden fyrr en hann tekur ábyrgð á því sem hann hefur gert. Biden var formaður dómsmálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings árið 1991 þegar ásakanir Hill á hendur Thomas komu í dagsljósið. Þær komu ekki í veg fyrir að hann yrði hæstaréttardómari og hefur hann gegnt embættinu síðan.
Talskona Biden segir að hann hafi hringt í Hill en Biden hefur löngum verið þekktur fyrir það sem margir telja ósæmilega hegðun í garð kvenna og hafa tvær konur nýlega stigið fram og sakað hann um áreitni. Biden tilkynnti í dag að hann myndi gefa kost á sér í forvali demókrata í aðdraganda forsetakjörs í landinu.
Hill sagði að hún hefði verið ósátt eftir símtalið við Biden og neitaði að túlka orð hans sem afsökunarbeiðni. Hún sagðist ekki vera sannfærð um að Biden átti sig á því hvaða skaða hann hefði valdið henni og öðrum konum sem voru fórnarlömb kynferðislegrar áreitni og kynbundins ofbeldis.
„Ég get ekki verið sátt við að heyra sagt að einhver biðjist afsökunar á því hvað kom fyrir mig. Ég verð sátt þegar ég veit að það verða alvörubreytingar og fólk tekur ábyrgð á gjörðum sínum,“ sagði Hill.
„Það að biðja mig afsökunar er eitt. Hann þarf að biðja aðrar konur afsökunar og almenning vegna þess að við vitum að íbúar landsins eru vonsviknir. Ekki bara konur. Karlar og konur hafa misst trú á því að ríkisstjórn landsins bregðist við kynbundnu ofbeldi.“
Kate Bedingfield, kosningastjóri Biden vegna forsetakosninganna á næsta ári, sagði að Hill og Biden hefðu rætt saman. Þar hefði hann sagt henni að hann sæi eftir atburðunum fyrir 28 árum og hrósaði henni fyrir hvernig hún hefði breytt venjum og hefðum í tengslum við kynferðislega áreitni í landinu.